…fengu svo svimandi arðgreiðslur fyrir hagnað sem þeir bjuggu til að stórum hluta sjálfir.
Ragnar Þór Ingólfsson skrifaði:
Hvernig er hægt að réttlæta 800 milljónir í rekstrarkostnað, úr sjóðum lífeyrissjóða, á þremur árum til að halda utan um hlutabréf í tveimur félögum og greiða framkvæmdastjóra 20 milljónir í mætingabónus?
Í umræðunni um hlutafjárútboð Icelandair var Framtakssjóður Íslands, sem stofnaður var eftir hrun, dreginn inn í umræðuna sem fyrirmyndarverkefni og til að undirstrika hversu mikið lífeyrissjóðir hefðu nú grætt á fjárfestingu sinni í Icelandair í gegnum árin og áratugina.
Framtakssjóðurinn skilaði jú miklum arði til eigenda sinna. En hvernig varð arðurinn til?
Tilvitnun í ummæli 12. febrúar 2014. Tilvitnun hefst:
„Þegar Framtakssjóður selur bréf sín í Icelandair fyrir um 7 milljarða kr. og margfaldar fjárfestingu sína.“
Eða hvað? Fullyrt var í Morgunblaðinu að lífeyrissjóðir og sjóðir Landsbankans hafi keypt hlut Framtakssjóðs og að Landsbankinn hafi séð um söluna.
En hver á Framtakssjóðinn?
Jú, lífeyrissjóðirnir og Landsbankinn, sem er stærsti einstaki hluthafinn sbr. vefsíðu Framtakssjóðs. Hér virðist að sömu aðilar séu báðum megin við borðið? Maður trúir því varla að ríkisbankinn hafi sjálfur séð um söluna og selt innanbúðar? Ef það er rétt, vekur það upp spurningar á hvaða grundvelli verðmyndun Icelandair bréfanna er byggð?
Svo má spyrja hvernig fjármögnuðu þessir sjóðir ríkisbankans þessi kaup? Með láni frá bankanum? Vonandi ekki.
Það er ljóst að bæði Framtakssjóður og Landsbankinn hafa mikinn hag af því að selja bréfin eins hátt og hægt er.
Tímasetningin er athyglisverð enda eru Icelandairbréfin í hæstu hæðum á sama tíma og flugvélaflotinn fer að nálgast síðasta notkunardag og mikill kostnaður er framundan þegar félagið fer úr einni í tvær flugvélategundir.
Ansi er ég hræddur um að einhver muni sitja uppi með Svarta-Pétur fyrr en seinna?“
Tilvitnun líkur.
Í þessu samhengi hefur verið áhugavert að skoða ársreikninga stærstu lífeyrissjóðanna frá 2009 til 2017 og setja í samhengi við sölu framtakssjóðsins á helstu eignum sínum og þróun eignarhluta lífeyrissjóðanna í sömu félögum.
Sem dæmi má nefna að Framtakssjóður Íslands seldi restina af bréfum sínum í Icelandair, 7% hlut, í febrúar 2014 sama ár keypti Lífeyrissjóður verslunarmanna 4,9% hlut. Einnig bættu fleiri lífeyrissjóðir við sig á sama tíma sem gefur sterkar vísbendingar um að kaupendur bréfanna af Framtakssjóði Íslands voru eigendur sjóðsins, lífeyrissjóðirnir.
Lífeyrissjóðirnir fengu svo svimandi arðgreiðslur fyrir hagnað sem þeir bjuggu til að stórum hluta sjálfir.
Ég skrifaði grein um sjálftökuna innan Framtakssjóðs íslands árið 2017 og er tengill hér neðar á greinina.
Þar má sjá gríðarlegan rekstrarkostnað. Rekstrarkostnað sem er falinn og kemur hvergi fram, nema að litlu leiti í uppgefnum rekstrarkostnaði lífeyrissjóða.
Það vakti athygli mína þá að eini tilgangur framtakssjóðsins frá 2014 til 2016 virtist vera að halda utan um hlutabréf í tveimur félögum og hefði hæglega verið hægt að slíta sjóðnum þremur árum fyrr og skila eigendum hans eignunum.
Rekstrarkostnaður Framtakssjóðs Íslands þessi þrjú ár voru litlar 790.387.017 kr.
Nú hafa lífeyrissjóðir úthýst fjárfestingum sínum í meiri mæli en áður, síðustu ár, til fjárfestingarsjóða en þrátt fyrir það hefur rekstrarkostnaður þeirra aukist gríðarlega þó aðrir sjái um að vinna vinnuna og fá veglega greitt fyrir án þess að nokkur taki eftir.
Þeir lífeyrissjóðir sem höfðu ekki innleyst hagnað sinn á bréfum í Icelandair síðastu ár og áratugi hafa því tapað fjárfestingunni að mestu fyrir utan arðgreiðslur sem greiddar hafa verið. Nema þær hafi farið í að kaupa bréf í Icelandair.