Fréttir

Hvernig í ósköpunum er hægt að trúa svona ótrúlegri vitleysu?

By Miðjan

December 29, 2018

Vart er hægt að verða vitni að ólíkari sýn á samfélagið en reyndin var hjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Samtaka iðnaðarins, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í Vikulokunum í morgun. Guðrún virtist sannfærð um jöfnuð og stéttleysi íslensks samfélags.

Sólveigu Önnu var brugðið við orð Guðrúnar. Svo mjög að loknum þættinum settist hún við lyklaborðið og skrifaði eftirfarandi:

„Í Vikulokunum sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins að einn af helstu kostum íslensks samfélags hefði verið stéttleysið. Ég verð að viðurkenna að ég varð eiginlega orðlaus. Mér fannst ótrúlegt að fullorðin manneskja væri að halda þessu fram. Af því að þetta er svo augljóslega ósatt. Ef að Ísland hefði verið stéttlaust land hvernig á þá að útskýra þær efnahagslegu og samfélagslegu staðreyndir sem við okkur blasa ef við horfum í kringum okkur, staðreyndir sem ég fór yfir í stuttu máli í síðasta leiðara mínum í blaði Eflingar:

– 40% félagsmanna Eflingar eru í leiguhúsnæði og fjölgar í þeim hópi á milli ára.

– Samkvæmt nýrri könnun Íbúðalánasjóðs er ástæða þess að fólk leigir en býr ekki í eigin húsnæði sú að fólk hefur einfaldlega ekki efni á að eignast eigið húsnæði. Jafnframt kemur fram að þeir leigjendur sem hafa lægstu tekjurnar hafa flutt oftast.

– Rúmlega helmingur lágmarkslauna, eða 51%, er nú skattlagður að fullu.

– Fjármagnstekjuskattur á Íslandi er 22%.

– Árið 2016 hækkuðu laun þingmanna um 44,3 %.

– Bankastjóri Landsbankans hækkaði í launum um 61 % á milli 2015 og 2017.

– Þau sem tilheyra ríkasta 5% samborgara okkar slógu 20 ára gamalt met í fyrra þegar þau á einu ári juku eigur sínar um ríflega 270 milljarða króna og eiga nú samtals tæpar 2.000 milljarða króna.

– Um helmingur félaga í Eflingu hefur miklar áhyggjur af eigin fjárhagsstöðu.

Þarna er ónefnt ýmislegt: Hátt í eitt þúsund börn á höfuðborgarsvæðinu búa í atvinnu og iðnaðarhúsnæði, þar sem hreinlætisaðstöðu og eldvörnum er oftar en ekki mjög ábótavant. Enda er húsnæðið ekki gert til þess að manneskjur hafi það fyrir heimili! Leikskólar og hjúkrunarheimili eru meira og minna rekin á vinnu kvenna sem fá svo lág laun að þær komast ekki af á þeim og þurfa annað hvort að sætta sig við ævilöng blankheit og streð eða fórna heilsunni í endalausa aukavinnu og yfirvinnu. Forstjórar þeirra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllina eru að meðaltali 4,7 milljónir sem eru nokkurn veginn 17 föld lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði. Og svo mætti lengi telja upp ýmsar STAÐREYNDIR úr íslenskum veruleika.

Hvernig er hægt að búa í samfélagi þar sem allt hér að ofan er sannleikur og láta samt eins og eitthvað fyrirbæri, einhver mýta, eitthvað sem ætti að flokka sem „falska frétt“ og henda rakleiðis í ruslið, eitthvað sem kallað er „Stéttlaust samfélag“, eitthvað sem var ekki veruleiki þeirra sem þetta land byggðu áður og er svo sannarlega ekki veruleiki þeirra sem þetta land byggja nú, sé raunverulegt? Í alvöru talað: Hvernig í ósköpunum er hægt að trúa svona ótrúlegri vitleysu?“