- Advertisement -

Hvernig geta kvótagreifar borgað stjórnmálafólki mútur?

Í reynd eru hins vegar 22 tonn af fiski í gámnum.

Gunnar Smári skrifar:

Stórútgerðirnar eru í raun lokaðar keðjur. Þær eiga kvótann, veiða fiskinn, landa, vigta, selja, flytja út og kaupa fiskinn. Og svindla á leiðinni. Stærstu útgerðirnar, til dæmis Samherji og Brim, eiga sínar eigin hafnaraðstöðu og landa aflanum úr togurum í gáma. Alvanalegt er að svindla á vigt. Þegar gámur sem er um 25 tonn að þyngd er vigtaður um borð í flutningaskip fylgir honum farmbréf sem segir að í honum sé 20 tonn af fiski, restin sé umbúðir, bretti og ís. Í reynd eru hins vegar 22 tonn af fiski í gámnum.

Með þessu er hægt að auka kvóta, fyrirtæki sem fær 24,5 þúsund tonn úthlutað (svo dæmi sé tekið af Samherja sjálfum, ekki hlutdeildarfélögum) getur þá veitt nær 27 þúsund tonn, mismunurinn er kvótavirði upp á um 415 m.kr. sé miðað við árlegt leiguverð en 7,2 milljarðar króna sé miðað við varanlegt söluverð. En auðvitað er þetta ekki bara svindl sem mæla má í upphæðum heldur raskar þetta líka fiskveiðistjórninni; til viðbótar við brottkast veldur þetta vigtarsvindl því að mun meira er veitt en ráðlagt var.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svindlað á sjómönnum

Sjómenn sem berjast gegn brottkasti missa vinnuna.

En með þessu er líka verið að svindla á sjómönnum, en áhöfnin á að fá 28,4% af aflaverðmæti alls aflans, ekki aðeins þess hluta sem er skráður. Með vigtarsvindlinu er aflaprósentan í raun lækkuð niður í 25,8%. Laun sjómanna eru því lækkuð um 9,1% með vigtarsvindli. Af hverju kvarta sjómenn ekki? Hvort viltu vera með góðar tekjur, kannski 1,5 m.kr. á mánuði, eða atvinnulaus sjómaður sem kvartaði yfir að það vantaði 165 þús. kr. í umslagið? Sjómenn sem berjast gegn brottkasti missa vinnuna og sjómenn sem benda á vigtarsvindlið missa vinnuna.

Eftir að gámurinn hefur verið vigtaður af starfsmönnum stórútgerðarinnar er hann innsiglaður af starfsmönnum stórútgerðarinnar og svo fluttur út með Eimskip (þar sem Samherji er ráðandi hluthafi) eða Samskipum (þar sem Ólafur Ólafsson fjárglæpamaður er aðaleigandi). Það eru því engar líkur á að skipafélagið slysist til að gera athugasemdir við þyngd eða farmbréf.

Selja sjálfum sér

Gámurinn er seldur sölufyrirtæki í eigi stórútgerðarinnar sem skráð er erlendis með endanlegt eignarhald á aflandssvæði, oftast Kýpur. Opinbert verð á 20 tonnum af fiski í gáminum er 25 m.kr. Þetta er það verð sem sölufélag stórútgerðarinnar greiðir útgerð stórútgerðarinnar. En þetta er vel undir markaðsverði, þegar sölufélagið selur 20 tonn af fiski fær það 29 m.kr. fyrir það magn. En í gámnum voru ekki 20 tonn heldur 22 tonn og því fær sölufélagið í raun 31,9 m.kr. fyrir allan gáminn. Mismunurinn á milli 31,9 m.kr. og 24 m.kr. sitja eftir í útlöndum og koma aldrei til Íslands, enda oftar en ekki í aflandsfélögum þar sem ekki er hægt að færa þetta svindl inn í bókhaldið, auk þess stórútgerðir vilja losna undan skattgreiðslum.

Þegar tekið er saman vigtarsvindl og falsað afurðaverð þá er lækkar skiptaprósentan í þessu þumalputtadæmi úr 28,4% niður í 22,2%. Laun sjómanna eru lækkuð um tæp 22%.

Stærstu svindla mest

Það eru aðeins stærstu útgerðarfyrirtækin sem hafa aðstöðu til að svindla svona mikið.

En þetta merkir, samkvæmt þessari þumalputtareglu, að fyrir hverja milljón sem stórútgerð setur sem tekjur í bókhald sitt á Íslandi þá fari um 330 þús. kr. inn í aflandsfélög. Brim skráði 29 milljarða króna tekjur í fyrra og því má gera ráð fyrir að um 9,5 milljarðar króna sitji eftir erlendis. Í tilfelli Samherja, sem var með um 47 milljarða króna í tekjur á Íslandi og í Færeyjum, ættu um 13 m.kr. að sitja eftir í útlöndum. Þetta eru tvö stærstu útgerðarfyrirtækin og í gegnum þau fer mest af svindlinu fram.

Það eru aðeins stærstu útgerðarfyrirtækin sem hafa aðstöðu til að svindla svona mikið, hafa algjört vald yfir allri keðjunni frá veiðum í gegnum vigtun að sölu og aflandsfélögum. Verðmæti útflutt sjávarfangs er nálægt 250 milljörðum króna. Þetta er það verð sem gefið er upp hérlendis. Þau sem þekkja til áætla að um 50 milljarðar króna leggist við þessa fjárhæð, afrakstur vigtar og verðsvindls stærstu útgerðanna. Miðlungsstórar útgerðir og smærri búa við allt aðrar aðstæður, vigta ekki sjálfar og hafa ekki eftirlit með sjálfri sér eins og stóru útgerðirnar. Allra stærstu útgerðirnar geta bætt allt að 33% ofan á uppgefið verð, þær sem á eftir koma minna og svo þær minnstu engu. Auðvitað hefur enginn yfirsýn yfir þetta allt. En 50 milljarðar króna er menntuð ágiskun þeirra sem hafa innsýn inn í þessa skuggaveröld.

Stórir sjóðir í útlöndum

Faldir sjóðir í útlöndum hafa tilheyrt sjávarútveginum í meira en öld.

Og það er af þessum peningum í aflöndum sem mútur eru greiddar. Ekki bara lykilfólki í stjórnmálum heldur líka bankafólki og öðru fólki sem stórútgerðir kaupa fyrirgreiðslu hjá. Það fara ekki 50 milljarðar árlega í mútur, langt í frá, því eigendur útgerðanna nota þetta fé til alls kyns hluta. En það er af þessu fé sem útgerðirnar borga múturnar. Þær eiga nóg af peningum til þess. Þeir eru innbyggðir í viðskiptamódelið.

Faldir sjóðir í útlöndum hafa tilheyrt sjávarútveginum í meira en öld. Richard Thors gat t.d. lifað eins og kóngur á Spáni áratugi eftir að Kveldúlfur fór á hausinn um miðja síðustu öld. Í þessa sjóði var sett kommisjón vegna fisksölu sem sjaldnar var minni en 2% af söluverðinu. En eftir að kvótakerfið var sett á og samþjöppun magnaðist svo stærstu fyrirtækin uxu upp úr sölusamtökunum og fóru að kaupa af sjálfri sér og selja á hærra verði magnaðist svindlið upp og kvótaútgerðin varð nánast að skipulagðri glæpastarfsemi, sem Kveikur og Stundin hafa leyft okkur að kíkja inn í síðasta sólarhringinn.

Almenningur hlunnfarinn

Það er barnalegt að halda að þegar stjórnmálafólk í Namibíu selji makrílkvóta opinberlega á 5 þús. kr. tonnið og taki fyrir það 6 þús. kr. í mútur að íslenskt stjórnmálafólki leigi útgerðum makríl á 3 þús. kr. tonnið og taki ekkert fyrir það að hlunnfara almenning. Miðað við það verð sem útgerðarmenn leigja hvor öðrum kvótann á má ætla að leiguvirði alls kvóta á Íslandsmiðum sé um 75 milljarðar árlega. Stjórnmálafólk, sem á að vera gæslufólk almannahagsmuna, leigja hins vegar þennan kvóta á 7 milljarða króna á þessu ári og 5 milljarða króna á því næsta. Miðað við markaðsvirðikvótans er almenningur hlunnfarinn um allt að 70 milljarða króna árlega. Í stað þess að þessir peningar renni til að byggja upp gott samfélag fyrir almenning endar það hjá útgerðarfólki, fyrst og fremst örfáum, helmingurinn hjá 15-20 fjölskyldum. Það er í raun fráleitt að ætla að svo umfangsmikil umboðssvik eigi sér stað án þess að ýtt sé undir þau með umtalsverðum mútum.

Og það er fráleitt að ætla að stórútgerðum sé falið algjört vald yfir allri framleiðslu- og söluferlinu og leyft að hafa eftirlit með sjálfum sér, fyrirkomulag sem er gróðastía fyrir svindl og spillingu, rænir sjómenn og alþýðu alla stórkostlegum fjármunum.

Lykilfólki mótað

Þau sem hafa innsýn inn í þetta spillingadý segja að það sé ekki svo að allir þingmenn fái greiddar mútur. Aðeins lykilfólk er keypt og fyrir mismunandi upphæðir.

Þau sem hafa innsýn inn í þetta spillingadý segja að það sé ekki svo að allir þingmenn fái greiddar mútur. Aðeins lykilfólk er keypt og fyrir mismunandi upphæðir. Sumir fá fáeinar milljónir, nokkuð sem er góð búbót fyrir fólk á góðum millistéttarlaunum en engum ofurtekjum. Þeir stjórnmálamenn sem eru komnir og meira efnafólki og eru með reynslu úr viðskiptalífinu fá hins vegar mun hærri upphæðir, nokkuð sem tryggir þeim gott líf ævina á enda og löngu eftir að stjórnmálaferlinum líkur. Til að tryggja stöðu stórútgerðarinnar, áframhaldandi auð og völd, er nóg að greiða nógu mörgum stjórnmálamönnum og áhrifafólki til að hafa það mikil áhrif að markverðar breytingar á kerfinu nái ekki í gegn.

Mútur í íslenskum stjórnmálum eru sannarlega ekki fráleit hugmynd, eins og Sigurður Ingi lét út úr sér í dag. Hann veit betur. Mútur stórútgerðarinnar er þvert á móti forsenda þess að sjávarútvegskerfið okkar er eins og það er; þar sem örfáir draga til sín megnið af arðinum af auðlindinni, þar sem stórútgerðin ræður sér í raun sjálf og ekkert eftirlit er með henni, þar sem útgerðarmenn geta lagt byggðarlög í rúst með því að selja kvótann ef þeim dettur það í hug og þar sem vonlaust virðist vera að ná fram nokkrum breytingum á kerfi sem sannarlega vinnur gegn hagsmunum almennings á sama tíma og örfáir auðgast ævintýralega á auðlindum sem í orði kveðnu eru eign almennings.

Þessi frásögn er byggð á viðtölum við fólk með innsýn inn í skuggaveröld stórútgerðarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: