Við megum ekki gleyma því að fyrir síðustu kosningar sendi hæstvirtur fjármálaráðherra bréf til allra eldri borgara landsins. Hverju var hann að lofa þar?“
Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins og rifjaði upp frægt bréf Bjarna Benediktssonar:
„Hann lofaði því hreint og klárt að hætta skerðingum og leiðrétta skerðingar eldri borgara frá 2009. Hefur það skeð? Nei. Mun það ske? Ekki meðan þessi ríkisstjórn er við völd. Það er alveg á hreinu. Hún ætlar bara að viðhalda þessu ótrúlega óréttláta kerfi sem virðist lúta þeim rökum að ekki sé til jafnrétti, réttlæti eða mannréttindi vegna þess að það er ekki jafnrétti, réttlæti eða mannréttindi að segja við fólk: Þú átt að lifa á 150.000 kr. minna en einhver annars og fá skerðingu og skatta. Við ætlum að sjá til þess að þú fáir læknishjálp, geðræna hjálp og allt saman en við ætlum líka að sjá til þess að þú hafir ekki efni á að sækja hana. Hvernig í ósköpunum látum við þetta viðgangast?
Ég er alveg með það á hreinu, eins og ég sagði í andsvörum við hæstvirtan fjármálaráðherra, að það kostar okkur margfalt minna, ég myndi segja tífalt, jafnvel 50-falt eða 100-falt minna, að sjá til þess að þessir hópar fái ókeypis læknishjálp, sama í hvaða formi hún er. Gerum það núna, byrgjum brunninn, sýnum einu sinni — og ég vona að það verði í næsta pakka — að okkur sé alvara, að við ætlum ekki að gleyma þeim sem minnst hafa og verst hafa það í okkar þjóðfélagi vegna þess að þeirra tími er löngu kominn og það veit hæstvirtur forsætisráðherra.“