Hverjir eru yfirburðir Stefáns?
„Ellefti karlinn var ráðinn útvarpsstjóri í vikunni andspænis flóru fremstu fjölmiðlakvenna landsins.“
Þannig skrifar Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir í Moggagrein í dag. Skrif Herdísar eru fín og skýrandi. Umfram allt veltir hún upp spurningum sem útvarpsráð þarf að svara. Nú eða á næstunni. Í grein Herdísar segir:
„Þegar staðan var auglýst laus til umsóknar var krafan um konu í stól útvarpsstjóra orðin tifandi tímasprengja. Yrði karl tekinn umfram konu í stöðuna þyrfti hann að hafa augljósa yfirburði á þeim sviðum sem gerð voru að skilyrði.
Margar færustu fjölmiðlakonur landsins sóttu um starfið en engin þeirra komst áfram eftir fyrsta viðtal. Þrír karlar og ein kona rötuðu í lokaúrtakið.
Konur sem eiga að baki áratuga reynslu sem ritstjórar, fréttastjórar, útgefendur, dagskrárgerðarmenn, fréttamenn, rithöfundar, fræðimenn og stjórnendur hljóta að spyrja hvað hafi legið til grundvallar valinu í lokaúrtakið því ekki voru það hæfnis- og kynjasjónarmið. Auk þess var krafan um sanngjarnt og gagnsætt ráðningarferli að engu höfð.
Svo virðist sem stjórn ríkisútvarpsins hafi markvisst útilokað þessar konur á lokametrunum til að forðast óhagstæðan samanburð við þann sem ráðinn var í því skyni að hindra jafnréttiskærur.
Eftir stendur ein spurning sem beint er til stjórnar ríkisútvarpsins:
Hvaða umfram-hæfnisþættir og yfirburðir réðu ráðningu ellefta karlsins í stöðu útvarpsstjóra?“