Stjórnmál

Hvergi eins kynjaskiptur vinnumarkaður og á Íslandi

By Miðjan

October 05, 2020

„Ástæðan er sú að íslenskur vinnumarkaður er sá kynjaskiptasti sem finna má. Það er vandamál og það er eitt af því sem við höfum tekið til sérstakrar skoðunar. Nú erum við að fara af stað í sérstaka skoðun á launamun og kynjaskiptum vinnumarkaði með aðilum vinnumarkaðarins vegna þess að þarna þarf að horfa til lengri tíma. Af hverju er íslenskur vinnumarkaður jafn kynjaskiptur og raun ber vitni? Það er langtímaverkefni að breyta því,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í morgun.

Oddný Harðardóttir hóf máls á aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem Oddný segir miða frekar að fjölga karlastörfum en kvenna.

„Atvinnuleysi kvenna er meira en karla í næstum öllum landshlutum og á Suðurnesjum, þar sem heildaratvinnuleysi er mest, var atvinnuleysi kvenna í ágúst 21% en karla 16%. Ég vil því spyrja hæstvirtan forsætisráðherra hvers vegna hæstv. ríkisstjórn ákvað að bregðast frekar við atvinnuleysi karla en kvenna og ýta undir misrétti kynjanna með svo afgerandi hætti í atvinnukreppu,“ sagði Oddný.

„Ég vil segja það við hv. þingmann að þegar við horfum á þessa fjárfestingaráætlun munu margar þeirra ákvarðana sem þar eru undir ekki síður nýtast konum. Ég nefni rannsóknir, nýsköpun, grænu verkefnin og skapandi greinar. Allt eru það fjárfestingar sem munu svo sannarlega gagnast konum ekki síður en körlum,“ sagði forsætisráðherra.