Fréttir

Hver verða áhrif vegaskatts á efnaminna fólk?

By Miðjan

January 22, 2019

Katrín Jakobsdóttir og Helga Vala Helgadóttir.

Helga Vala Helgadóttir spurði Katrínu Jakobsdóttur um vegaskattinn fyrirhugaða.

„Ég vil einnig spyrja hvort þessi nýja skattheimta hafi verið rædd við aðila vinnumarkaðarins og þá hvort greind hafi verið þau hagrænu áhrif sem þessi nýja skattheimta muni hafa á almenning í landinu, ekki síst þá efnaminni þar sem um flata skattheimtu er að ræða,“ spurði Helga Vala.

„Ég er líka í grænum flokki þar sem við aðhyllumst þá hugmyndafræði að þeir borgi sem mengi og það má segja að bensín- og olíugjöld hafi verið slíkur skattstofn hingað til í samgöngukerfi okkar. Þess vegna höfum við staðið fyrir því að þeir sem keyra ökutæki sem nýta umhverfisvænni orkugjafa á borð við rafmagn njóti sérstakra ívilnana,“ sagði Katrín.

„Nú liggur hins vegar fyrir að þau gjöld munu breytast þannig að ég lít svo á að umræðan um veggjöld sé tvíþætt. Annars vegar er það hvernig við ætlum að hafa fjármögnunarkerfið til lengri tíma.“

„Hins vegar er það verkefni sem við þekkjum, að inni í þinginu er samgönguáætlun þar sem verið er að bæta verulega í framlög til uppbyggingar, eins og kemur fram í stjórnarsáttmála, en uppi hafa verið hugmyndir um það hvort flýta megi þeim framkvæmdum enn frekar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag.