Ögmundur Jónasson er hugsi yfir lokun Hótels Sögu og veltir fyrir sér hvers vegna er svo komið að þetta hótel eigi sér ekki viðreisnar von.
„Í huga mér hrannast upp spurningar. Sagt er að Hótel Saga kæmi til með að eiga erfitt á hótelmarkaði. Hvers vegna? Jú, verið er að byggja hvert risahótelið á fætur öðru í miðju borgarinnar og er Austurvöllur þar ekki undanskilinn. Milljarðamæringur frá Malasíu – maður sem aldrei mun hafa stigið fæti hér á land en er, sem eigandi Icelandairhótelanna í landinu, einn af helstu styrkþegum íslenskra skattgreiðenda í viðspyrnu stjórnvalda gegn kórónuveirunni – vill nú nota styrkina til að byggja heljarinnar hótel og lúxusíbúðir við Tryggvagötuna í miðbæ Reykjavíkur. Skammt undan, við hlið tónleikahússins Hörpu, er verið að ljúka smíði risahótels bandarísku Marriott-keðjunnar. Svo er, sýnist mér, orðið fokhelt nýtt hótel í Lækjargötunni. Allt þetta er til viðbótar við öll hin hótelin, gömul og ný,“ skrifar Ögmundur í Moggann í dag.
„Hver skyldi stjórna þessu? Því er auðsvarað, fjármagnið stjórnar þessu, fjárfestarnir. Þeir spyrja aldrei um samfélagslega hagkvæmni heldur aðeins hvar þeir nái í bestu lóðina, hvernig auðveldast sé að ryðja keppinautum til hliðar, með öðrum orðum, hvernig hanna megi eina borg þannig að hún þjóni hagsmunum þeirra sem best. Í Reykjavík hefur þetta tekist bærilega.“