„Augljóst er að svona getur þetta ekki haldið áfram,“ segir í leiðara Moggans í dag. Þar er fjallað um mikla fjölgun opinberra starfsmanna. Bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Mogginn hefur áhyggjur og sér um leið tækifæri til frekari einkavæðingar.
„Þessari óheillaþróun verður að snúa við og það þarf líklega að gerast á tvennan hátt. Annars vegar með því að pólitískir forystumenn sendi skýr skilaboð um að opinberar stofnanir og fyrirtæki eigi ekki að yfirbjóða almenna markaðinn á nokkurn hátt, hvort sem er í kjarasamningum eða fríðindum þar fyrir utan. Hins vegar með því að hið opinbera fækki störfum hjá sér og feli einkaaðilum stærri hluta verkefnanna. Það má gera bæði með því að fækka þeim verkefnum sem hið opinbera sinnir eða greiðir fyrir, sem er æskilegt að gera eins og unnt er, og með því að semja við einkaaðila um að sinna þeim verkefnum sem ekki er hægt að leggja af, svo sem í heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.“
Svo koma lok leiðarans: „Því má ekki gleyma að það eru fyrirtækin í landinu sem skapa þau verðmæti sem halda uppi opinberu þjónustunni. Til að það geti haldið áfram verður hið opinbera að gæta eðlilegs hófs á vinnumarkaði.“
Við þetta verður að gera athugasemd. Sennilega er ekkert fyrirbæri sem býr til meiri verðmæti en Landspítalinn. Daglega útskrifast þaðan fólk sem var illa statt, og jafnvel utan vinnumarkaðar, heilbrigt að nýju. Það munar um hvern einstakling sem öðlast bata á ný.