Var það Bjarni Benediktsson og hans sveit eða voru það útgerðarmenn Moggans sem komu böndum á Davíð Oddsson?
Ekki fæst betur séð en Davíð Oddsson sé hættur afskiptum af íslenskum stjórnmálum. Þó fyrr hefði verið, kann einhver að segja. Aðrir eru ósammála. En þeim fækkar nokkuð ört.
Langt er síðan að Davíð skrifaði eitthvað sem heitið getur um íslensk stjórnmál. Hann hefur látið af gagnrýninni á Bjarna Ben og annað fólk yngra en hann er sjálfur. Meðan Davíð skrifaði sem mest um flokkinn sinn missti flokkurinn flugið. Mörgum var í mun að hann hætti skrifunum. Það hefur hann gert en staða flokksins hefur ekkert batnað. Skýrt dæmi um hversu margir ofmeta mátt Davíðs.
Útgerðarmennirnir hafa kannski ýtt við eigin ritstjóra. Þeir hljóta að hafa séð hversu fjaraði undan ritstjóranum og Mogganum. Og að best færi að hann vandaði sig ögn betur og gerði minna af því að velta sér upp úr meintum eigin afrekum. Og léti flokkinn þeirra í friði. Næg væru vandamálin samt.
Við hin, við sem erum frjáls frá hagsmunagæslunni, söknum kannski stjórnmálaskrifa Davíðs. Þá helst gagnrýni hans á eigin flokk. Þau voru allskonar. Skemmtileg, hallærisleg, beitt, súr og hvað eina.
Það er Bjarna í hag og það er útgerðarauðvaldinu í hag að Davíð hafi snúið sér að langlokum um þá Boris Johnson og Donald Trump. Þau skrif skipta engu. Hvorki Boris né Donald hirða nokkuð um það sem skrifað er í Moggann.
-sme