- Advertisement -

Hver fól markaðnum lausnina?

„…má því líkja við brauðraðirnar í Sovét forðum.“

„Nú hefur ríkt neyðarástand í húsnæðismálum um nokkurra ára skeið. Það sem hefur verið gert af hinu opinbera er of lítið og of seint. Markaðurinn hefur heldur ekki leyst þetta.“

Þetta sagði Álfheiður Eymarsdóttir, sem situr á Alþingi, fyrir Pírata.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Enda hver ákvað að markaðurinn ætti alfarið að sjá um og leysa húsnæðismál? Líklega sama mannvitsbrekkan og ákvað að landbúnaður og sjávarútvegur skyldi undanþeginn öllum markaðslögmálum,“ sagði hún.

Álfheiður hélt áfram: „Við vitum af börnum, eldri borgurum, öryrkjum og innflytjendum í iðnaðarhúsnæði, bílskúrum, geymslum og hanabjálkum. Okkur er frjálst að hafa þær stjórnmálaskoðanir að hver sé sinnar gæfu smiður. Ég er þeirra á meðal. En frumskylda ríkisins er að hjálpa þeim sem ekki geta hjálpað sér sjálfir. Þar á meðal eru einmitt börn og öryrkjar.“

„Húsnæði er ekki lúxus heldur grunnþörf líkt og matur og vatn. Húsnæðisskorti hér heima má því líkja við brauðraðirnar í Sovét forðum. Við fáruðumst yfir þeim en finnst í lagi að börnin okkar, framtíðin búi við alls óviðunandi húsnæði. Ef við leysum þetta ekki fljótt og vel  þá er bara tímaspursmál hvenær hjólhýsahverfin og kassaborgirnar fara að rísa. Það er falleg framtíðarsýn,“ sagði Álfheiður.

„Eftir Vestmannaeyjagosið árið 1973 voru flutt inn rúmlega 500 einingahús og byggð á um 20 stöðum á landinu.  Við þekkjum öll Viðlagasjóðshúsin og meirihluti þeirra er enn í notkun nú 45 árum seinna. Fín hús. Því legg ég til að hafist verði handa nú þegar við byggingu hagkvæmra einingahúsa í anda Viðlagasjóðs forðum til að leysa þennan vanda því þetta er til háborinnar skammar,“ þannig endaði Álfheiður kröftuga ræðu sína.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: