„Ekki hefur verðlækkunin til bænda skilað sér á disk okkar neytenda. Spurningin er: Hvað varð um þessa fórn bænda? Lenti hún hjá afurðastöðvum? Eða hjá kaupmönnum? Svar óskast.“
Þannig skrifar þingmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki í Mogganum í dag.
„Eins og flestum mun kunnugt lækkuðu afurðastöðvar verð til sauðfjárbænda um allt að 29% síðasta haust. Sú lækkun kom í kjölfar 10% lækkunar árið áður. Hræddur er ég um að það færi um almenna launþega ef þeir yrðu fyrir viðlíka kauplækkunum fyrirvaralaust og án viðvörunar.“
Þorsteinn segir að lækkanirnar til sauðfjárbænda hafi verið sagðar nauðsynlegar vegna erfiðrar birgðastöðu auk versnandi afkomu afurðastöðvanna. „Maður hefði haldið að í kjölfar lækkananna og vegna birgðastöðunnar hefði verið gripið til sérstakra ráðstafana í markaðsmálum. Sú er ekki raunin. Menn hafa að vísu sótt til Kína og víðar og er það góðra gjalda vert. En á besta markaðnum fyrir sauðfjárafurðir, innanlandsmarkaðnum bólar ekki á neinu. Engar verðlækkanir, engin söluátök, engar uppskriftasamkeppnir. Fáar nýjungar í skurði og framsetningu nema þær sem Costco innleiddi. Ekki hafa menn heldur ráðist í söluátök í stóreldhúsum og mötuneytum. Á matseðlum þeirra mötuneyta sem ég þekki gerst til, mötuneytum stjórnarráðs og Alþingis, er lambakjöt t.d. mjög fáséð. Ekki þekki ég hvernig háttar til í skólaeldhúsum en þarna gætu leynst tækifæri.“
Alla greinina er að finna í Mogga dagsins.