Og samt væla Jóhannes Þór, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins. Iss!
Þór Saari skrifar:
Hér er alveg prýðileg hagfræðileg úttekt á þeim samfélagslega kostnaði sem hlýst af hverjum komufarþega til landsins og hann þarf ekki að borga sjálfur. Niðurstaða Tinnu Laufeyjar er að hver farþegi kosti samfélagið um 80 þúsund krónur umfram það sem hann hefur sjálfur borgað. Það er ansi mikið og rétt að hafa í huga að þessi kostnaður er hrein gjöf landsmanna til þeirra sem ferðast.
Niðurstaða Tinnu Laufeyjar um að hver íbúi landsins væri til í að greiða að meðaltali 1.000 krónur á dag til að vera laus við allar Kóvid-19 kvaðir þýðir að verðmæti smitfrís samfélags er að mati landsmanna ríflega 131 milljarður á ári. Það eru þessi verðmæti sem ferðaiðnaðurinn krefst hikstalaust að fá til sín án þess að borga fyrir það. Og samt væla Jóhannes Þór, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins. Iss! Þetta er skýrt dæmi um það þegar verðmyndun á „gæðum“ í þessu tilfelli ferðalögum, brotnar niður og verður ekki marktæk. Þetta rifjar upp möntru úr umhverfis- og auðlindahagfræðinni þegar ég var í námi þegar kom að því að verðleggja umhverfiskostnað, til dæmis mengun og náttúruspjöll.
„Come what may, we´ll find a way. Provided prices are right“. Vandamálið er að „verðin“ eru sjaldnast „rétt“. Þess vegna Bakki, Kárahnjúkavirkjun og háspennulínur, svo nærtæk dæmi séu tekin.
Það er mjög gaman að sjá þegar kollegar geta sett fram flókin úrlausnarefni á svona einfaldan máta. Takk.