Greinar

Hver eru prinsipp Framsóknar?

By Miðjan

August 29, 2020

„Þau stjórn­mála­öfl sem við sjá­um nú yst til hægri og yst til vinstri bjóða eng­um til sam­tals held­ur miða að því að níða skó­inn af öðrum, oft með því að hafa uppi stór orð um svik, prinsippleysi og jafn­vel landráð ef það ylj­ar eig­in sjálfs­mynd þá stund­ina.“

Þetta er tilvitnun í Moggagrein, frá Sigurði Inga Jóhannssyni, frá því í morgun. Hann fer þarna inn á troðna slóð forvera síns í formannssætinu, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem taldi gagnrýni á sig og sinn flokk, vera árásir.

En hver eru prinsipp Framsóknar? Er Framsókn kannski prinsipplaus flokkur? Nei, ekki alveg. Nýjasta dæmið sýnir vel hvert prinsippið er. Að koma sínum að.

Sigurður Ingi heldur áfram að bera sig illa:

„Stjórn­mál verða alltaf sam­vinna og sam­komu­lag nema við vilj­um búa í sundruðu sam­fé­lagi.“ Gerum við það ekki? Sigurður Ingi þarf annað en að spyrja öryrkja. Þá fengi hann fullvissu um að svo er.

„Þeir sem mest níða niður stjórn­mál­in virðast líta svo á að mála­miðlan­ir milli ólíkra sjón­ar­miða séu óá­sætt­an­leg­ar og að öll sam­vinna sé svik. Þegar þess­ar radd­ir verða ráðandi í umræðunni, hjá fjöl­miðlum og álits­gjöf­um, þá eykst kraf­an um að eng­inn flokk­ur gefi neitt eft­ir og þá verður ekk­ert sam­tal, eng­in sam­vinna og þar af leiðandi eng­in framþróun; bara stöðnun, tor­tryggni og ófull­nægja allra. Allra nema þeirra sem njóta þess að segja að all­ir séu prinsipplausir; all­ir nema þeir sjálf­ir,“ skrifar Framsóknaherrann sem berst fyrir eigin pólitíska lífi sem og fyrir lífi flokksins.

Sigurður Ingi notar nú hvert tækifæri og segir einatt: „Framtíðin ræðst á miðjunni.“