Ekki er víst forysta Framsóknarflokksins hafi kjark til að segja frá stjórnarsamstarfinu. Reyndar er það frekar ólíklegt. Ekki fer hins vegar á milli mála að niðurlæging formannsins, Sigurðar Inga Jóhannssonar, er algjör með „þátttöku“ flokksins í stjórnarsamstarfinu.
Ekki er nóg með að Sigurður Ingi fékk minna ráðuneyti en dæmi eru um að flokksformenn hafi áður fengið. Heldur bætist við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá fyrsta degi gert allt til að angra Sigurð Inga. Fyrir kosningar býsnaðist hann yfir hugmyndum Jóns Gunnarssonar, sem hefur ekki sleppt tökum á málaflokknum, um vegaskatta. „Það þarf ekki alltaf að hækka skatta,“ var helsta loforð formanns Framsóknar fyrir kosningarnar.
Nú hefur honum verið gert að fylgja eftir vegaskattatillögum Jóns, ráðandi samgönguráðherra. Svo illa er Sigurður Ingi leikinn að hann lét hafa þetta eftir sér, eftir hið hörmulega slys við Núpsvötn.
„Þetta sorglega slys er auðvitað áminning um að við þurfum að flýta framkvæmdum miklu meir. Hættan í vegakerfinu er því miður allt of víða. Þessi staður er einn af þeim sem að við þyrftum að fara hraðar í en það er svo sannarlega líka miklu víðar sem við þurfum að gera það. Þess vegna erum við að horfa í það að geta flýtt framkvæmdum meðal annars með nýjum veggjöldum.“
Þessi orð þykja einstaklega ósmekkleg. Og varla sögð af manni i fullkomnu jafnvægi. Stóll samgönguráðherra rýmir ekki tvo rassa. Þar er ekkert pláss fyrir Sigurð Inga. Staða hans er virkilega vandræðaleg. Og aðeins leið er honum fær. Að berja í borð og segja hingað og ekki lengra ganga síðan út í frelsið.
Tækifæri Framsóknar liggur einnig í öðru. Ef kosið yrði sem fyrst er víst að Miðflokkurinn, sem var stofnaður til höfuðs Framsókn, er í sárum eftir að meirihluti þingmanna flokksins sýndi sinn innri mann. Framsókn gæti losað sig við þá óværu.
Tækifæri Framsóknar í einstaklega þröngri stöðu er þessi. Þau geta reynt að bjarga eigin heiðri og um leið kviksett Miðflokkinn.
Til þess þarf kjark sem finnst varla í herbúðum Framsóknar. Á meðan fer Bjarni Benediktsson sínu fram. Hann er með yfirfrakka í ráðuneytum formanna hinna flokkanna, Jón Gunnarsson er hinn raunverulegi yfirmaður Sigurðar Inga og í forsætisráðuneytinu er Unnur Brá Konráðsdóttir sérlegur fulltrúi Bjarna. Fylgst er með forsætisráðherra.
-sme