Hver borgar kórónuna?
Gildi hið síðara virtist einsýnt að einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki borgi Covid-hrunið líka.
Sigurður G. Guðjónsson skrifar:
Um veröld víða geisar farsóttin Covid 19. Heilu samfélögin eru lokuð, ferðaþjónustan nánast tekjulaus, atvinnuleysi meira en þekkst hefur allt frá kreppunni miklu um og upp úr 1930. Ekki sér enn til lands.
Af þessu ástandi leiðir að fjöldi einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja geta ekki efnt skyldur sínar, eins og þeim ber að gera samkvæmt þeirri grundvallarreglu samningaréttar, að gerða samninga beri að virða og efna.
Frá þessari skýlausu reglu verður almennt ekki vikið. Það lærði íslenska þjóðin á eigin skinni eftir Hrunið 2008.
Þá dugði skuldurum ekki að bera fyrir sig forsendu brest eða Force Majeure -Hrunið, hvað þá að krefjast þess að dómstólar beittu 36. gr. samningslaga og vikju til hliðar skilmálum samninga í heild eða að hluta. Dómstólar höfnuðu því alfarið að lækka kröfur samkvæmt lánssamningum sem þanist höfðu út vegna gengishruns eða verðbólgu. Skipti engu í þeirri baráttu þó bent væri á að bankarnir sem voru að rukka lánin hefðu eignast þau fyrir hálfvirði eða minna við stofnun í október 2008. Engu skipti heldur þó stjórnvöld settu lög í október 2009 sem áttu að slá skjaldborg um einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.
Bankakerfið sem Fjármálaeftirlitið bjó til eftir Hrun og féll að mestu í hendur óþekktra erlendra kröfuhafa 2009 græddi því á tá og fingri á einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum.
Líkt og eftir Hrunið 2008 vilja stjórnvöld nú í Covid-kreppunni gera allt til að vernda einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Ríkið er sagt standa vel. Svo má vera. Ríkið á nú stærstan hluta bankakerfisins sem til varð eftir Hrun. Þar á bæ láta menn eins og Covid-hrunið sé þeim óviðkomandi. Lán skulu greidd með umsömdum vöxtum eða samið um frestun gjalddaga vaxta og afborgana. Bankarnir ætla ekkert að taka á sig. Kannski vegna þess að ávöxtunarkrafa eiginfjár er há og óraunhæf. Seðlabankastjóri, sem er ríkisstarfsmaður, hefur enda sagt að það sé viðskiptabankanna að ákveða hvað fyrirtæki fái að lifa.
Getur verið að nú dugi að bera fyrir sig Force Majeure – óviðráðanleg atvik- þannig að efndir samninga frestist án viðurlaga svo sem dráttarvaxta þar til Covid heimskreppan er liðin hjá eða gildir hið gamla að peningagreiðslu ber að inna af hendi sama hvað á gengur ? Gildi hið síðara virtist einsýnt að einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki borgi Covid-hrunið líka.