Hver á að hafa vitið fyrir ríkinu?
Nei, það eru sjávarútvegsráðuneytið og sjávarútvegsráðherra sem gerðu mistökin.
Marinó G. Njálsson skrifar:
Ein frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 vakti sérstaka athygli mína. Hún var um að búið væri að afturkalla öll veiðileyfi á grásleppu, þar sem kvótinn væri veiddur. Þetta virðist koma sér sérlega illa við grásleppusjómenn sem ekki hafa hafið veiðar eða eru nýlega byrjaðir. Rætt var við þrjá sjómenn af Skaganum, sem fannst vera komið í bakið á sér og sjómenn á Norðurlandi hafi verið full stórtækir í sínum veiðum.
Ég er að reyna að átta mig á þessari kvótasetningu vegna grásleppu. Hann var settur á 4.600 tonn vegna ástands stofnsins. Í rökstuðningi sínum fyrir því að setja kvóta á grásleppu að lífmassavísitala grásleppu hafi lækkað frá 2016 (sjá skýrslu Hafrannsóknarstofnunar: https://www.hafogvatn.is/…/extr…/images/Hrognkelsi536639.pdf). Á bls. 3 í skýrslu Hafró má sjá að veiðisvæði grásleppu er að mestu um landið vestanvert og norðanvert. Virðist Breiðafjörðurinn vera sérstaklega gjöfull, ef ég er að skilja myndina rétt.
Samkvæmt upplýsingum á Vísindavefnum, þá er grásleppa heimakær, þ.e. hún leitar á uppeldisstöðvar sínar. „Rannsóknir á hrognkelsum sýna að þau snúa aftur til uppeldisstöðva sinna til að hrygna og halda tryggð við svæðið ár eftir ár. Áður en að hrygningargöngu kemur halda hrognkelsi til úti á reginhafi en fara á grunnmið seinni hluta vetrar og snemma á vorin til hrygningar.“ (Til skýringa, þá er grásleppa kvenkyns hrognkelsi.)
Hafró miðar ráðgjöf sína við lífmassa stofnsins um allt land (ef ég skil skýrsluna rétt). Því hefði mátt halda að kvótinn yrði landshlutabundinn, þar sem grásleppan færir sig ekki á milli svæða og lítið gagn er af veiðistýringu, ef allur aflinn er veiddur á einu svæði. Það leiðir til þess að stofninn minnkar enn frekar þar sem veiðarnar eru stundaðar, en vex þar sem veiðarnar eru ekki stundaðar. Að sjómenn á Norðurlandi veiði drjúgan hluta af kvótanum veldur því að þeir ganga hlutfallslega meira nærri stofninum norðanlands en hugmynd Hafró var með veiðiráðgjöf sinni.
Kannski var ráðgjöf Hafró röng og nóg var af grásleppu norðanlands. Hugsanlega var hún hins vegar alveg rétt og þá hafa sjómenn á Norðurlandi veitt meira en stofninn þar þolir.
Ég ætla ekki að gagnrýna sjómenn á Norðurlandi mjög mikið fyrir að halda áfram veiðum meðan þeir máttu. Nei, það eru sjávarútvegsráðuneytið og sjávarútvegsráðherra sem gerðu mistökin. Hvernig datt mönnum í hug að gefa frjálsa sókn í fisktegund sem er jafn heimakær og grásleppan virðist vera? Það er ekki mikil skynsemi í því að leyfa óhindraðar veiðar á hátt í 4.600 tonnum úti fyrir Norðurland/Norð-austurlandi, því grásleppa af öðrum svæðum bæta ekki fyrir ofveiði þar með því að færa sig úr Faxaflóa eða Breiðafirði yfir í Húnaflóa, Skjálfanda eða að Langanesi. En það má samt gagnrýna sjómenn fyrir norðan. Hvað gera þeir á næsta ári, ef í ljós kemur að þeir gengu of nærri sínum hluta stofnsins í ár? Jú, þeir kvarta hugsanlega yfir aflabresti eða halda áfram að ganga of nærri sínum hluta stofnsins. Heimta örugglega að fá bætur eða byggðakvóta til að bæta þeim upp aflabrest sem þeir ollu sjálfir. Sjáið nefnilega til, að þeir bera enga ábyrgð. Ráðuneytið sagði að þeir mættu veiða allt að 4.600 tonn og ráðuneytið hlýtur að hafa vitað sínu viti!
Því miður það of algengt að ríkið verður að hafa vitið fyrir mönnum. En hver á að hafa vitið fyrir ríkinu?
Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.