- Advertisement -

Hvenær lýkur refsingum ?

Sigurður G. Guðjónsson skrifar: Vilhelm Neto, sem ég þekki engin deili á, mun um liðna helgi hafa tístað í þá veru, að það væri ógeðslegt að leikarar sem hafa verið kærðir fyrir nauðgun fengju sífellt vinnu á ný.

Vilhelm nefnir engin nöfn eftir því sem ég veit best. Spjótunum var engu að síður fljótlega beint að Kjartan Guðjónssyni leikara. Tek það fram að ég þekki hann ekki persónulega. Finnst hann hins vegar ágætur leikari.

Starfs mín vegna hef ég fyrir margt löngu lesið dóm sakadóms Reykjavíkur frá því í lok níunda áratugs síðustu aldar og dóm Hæstaréttar frá fyrsta ári tíunda áratugar sömu aldar, þar sem Kjartan hlaut 15 mánaða dóm fyrir nauðgun og var gert að greiða brotaþola miskabætur. Kjartan var hálf þrítugur þegar dómur Hæstaréttar gekk, en brot sitt hafði hann framið tveimur árum áður.

Þeir sem dæmir eru til fangelsisrefsingar eru látnir afplána hana í fangelsum í samræmi við lög og reglur um fullnustu refsinga.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Refsingum er ætlað að hafa bæði sérstök og almenn varnaðaráhrif. Með því er átt við að refsing gerð einum á að vera jafnt honum og öðrum víti til varnaðar.

Refsing er á vissan hátt lögboðin hefnd ríkisins gagnvart þeim sem brjóta refsilöggjöf þess. Á sama tíma á refsing einnig að vera leið til að betra hinn brotlega. Þess vegna er það svo að dæmdir brotamenn og -konur fá að afplána hluta refsinga utan múra fangelsis til þess að aðlagast samfélaginu, stunda nám, vinnu, eflast og þroskast. Markmiðið er að búa til nýta þegna samfélaginu til hagsbóta.

Þegar afplánun er lokið hefur hinn brotlegi gert upp við samfélagið og hann á þá kröfu að fá að vera fullgildur þjóðfélagsþegn. Sakaðir og dæmdir njóta fullra mannréttinda, nema heimild sé til í lögum til að skerða þau, sem lið í refsingu og þá tímabundið.

Á þessu ári eru 28 ár frá því Kjartan Guðjónsson hlaut áðurgreindan refsidóm. Refsingin sem hann hlaut var í samræmi við dómaframkvæmd. Hann og samfélagið eru því löngu kvitt.

Nú vill einhver Vilhelm Neto taka mál Kjartans upp á ný og fela dómstól götunnar það til úrlausnar, þar sem sú krafa er gerð að Kjartan verði sviptur rétti til að starfa á þeim vettvangi sem hann hefur menntað sig til. Mannréttindi hans og fjölskyldu hans skipta þá engu. Kjartan skal úthrópaðu og flæmdur úr vinnu; gerður réttlaus.

Svo einkennilega vill til að þessari atlögu gegn Kjartani, sem einnig bitnar á fjölskyldu hans, er stjórnað af fólki sem telur sig boðbera aukins réttlætis og bætt siðferðis í samfélaginu. Atlagan að Kjartani Guðjónssyni ber vott um hið gagnstæða og er ógeðfelld í alla staði.

Birtist á Facebooksíðu höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: