- Advertisement -

Hvenær er nóg nóg?

En eins og kunnugt er hefur komið í ljós að Sveinn Andri hefur mörgum sinnum sagt ósatt um verð og greiðslur þessara hluta.

Halldór Árni Sveinsson skrifar:

Hafnfirðingurinn og grínistinn Laddi hefur að undanförnu dvalið í uppeldisbænum við tökur á sjónvarpsseríu sem hann leikur aðalhlutverkið í. Laddi hefur sótt marga karaktera í gríni sínu í Fjörðinn og tengt ýmsa brandara í sjói sínu Göflurum. Í einum brandara segir frá því þegar útsjónarsamur verslunarmaður í verslun Hansen á Akurgerðislóð (líklega Dengsi sonur Ferdinands?) selur auðtrúa bandarískum ferðamanni hauskúpu sem hann fullyrðir að sé hauskúpa landnámsmannsins Ingólfs Arnarsson. Nokkrum árum síðar er ferðamaðurinn ameríski aftur á ferð í Firðinum og rekst þá inn í sömu búð. Og viti menn, í hillu er hauskúpa nokkuð minni en sú sem hann hafði áður keypt á okurprís, merkt Ingólfi Arnar bur – en reyndar 100 dollurum ódýrari en sú sem hann áður keypti. Bregst Kaninn hinn versti við og spyr búðarmanninn hverju þetta sæti, viss um að hann hafi verið prettaður á lúalegan hátt. Ekki stóð á svarinu hjá Dengsa; „Jú sjáðu til, þessi hauskúpa er af Ingólfi þegar hann var 12 ára. Ætlarðu að fá hana?“

Mér flaug þessi skrýtla í hug þegar ég las Fréttablaðið í dag sem blaðberinn hafði troðið undir húninn í blíðviðrinu, en þar er frétt á útsíðu og í Markaðnum, þess efnis að skiptastjóri þrotabús WOW, Sveinn Andri Sveinsson, sé nú sakaður um að hafa selt sömu hluti úr þrotabúinu tvisvar og hafi afhent bandarísku Ballerínunni, sem heldur blaðamannafundi hér á landi á nokkra vikna fresti um að flug hennar fari senn að hefjast, góssið – en ekki þeim sem bauð í þessa hluti fyrst og greiddi fyrir. Ofan í kaupið fullyrðir sá sem telur sig svikinn af umsýslu skiptastjóra, að Sveinn Andri hafi lekið trúnaðarupplýsingum í lögmann Ballerin. Ofan á allt saman er fullyrt, að þær skitnu 50 milljónir sem fengust fyrir búninga, varahluti, flugrekstrarbækur og þá væntanlega kynningarefni líka, hafi enn ekki verið greiddar að fullu. En eins og kunnugt er hefur komið í ljós að Sveinn Andri hefur mörgum sinnum sagt ósatt um verð og greiðslur þessara hluta.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Því hlýtur maður að spyrja sig hvenær nóg sé komið af því örlæti dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur að bókstaflega moka verkefnum á sviði skiptastjórnar í þennan mann, svo hávær sem andmæli annarra lögmanna og þeirra sem hagsmuna eiga að gæta, við skipti félaga? Og er ekki full ástæða að hefja opinbera rannsókn á embættisfærslu skiptastjórans – og dómstjórans?

Merkilegast er þó finnst mér að ekki heyrist múkk í Lögmannafélagi Íslands um þessi mál. Eitt sinn kom til álita hjá félaginu að þótta um háttsemi eins félagsmanns síns sem uppvís varð að því að skila ekki bótum til umbjóðenda síns, hafði sem sagt gerst sekur um fjárdrátt. Stjórn og væntanlega siðanefnd Lögmannafélagsins fjallaði um málið og komst að því að framganga lögmannsins væri ólögmannsleg! Kanntu annan?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: