- Advertisement -

Hvenær á að opna landið?

Þá hefur enginn erlendur ferðamaður verið valdur að samfélagssmiti á Íslandi.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Hvenær á að opna landið, fyrir hverjum og í hvaða röð? Þetta eru spurningarnar sem brenna á mörgum, þó rétt sé að benda á að landið er opið og lokunin fellst eingöngu í kröfu um sóttkví.

Stórir hópar eru í svo mikilli angist yfir því að hér komi alvarlegt bakslag, að þeir vilja helst halda landinu lokuðu um alla eilífð eða a.m.k. vel fram á næsta ár, þegar hugsanlega er komið bóluefni/mótefni. Aðrir telja að halda verði illum ferðamönnum í burtu fram á haustið, því þeir gætu borið smit með sér. Ég er hins vegar á því, að ekkert mál væri að opna strax fyrir ferðamenn frá löndum þar sem fá eða engin ný smit eru að greinast án þess að krefja þá um 14 daga sóttkví.

Reglur verða að vera skýrar og studdar rökum. Að krefja einstakling sem kom frá Grænlandi, sem hefur verið smitfrítt í mánuð, um að fara í 14 daga sóttkví er órökrétt. Hafi viðkomandi ekki smitast eða sýnt einkenni sl. fjórar vikur, þá mun ekkert breytast næstu 2 vikurnar nema hann hafi smitast við komuna til Íslands, þ.e. af einhverjum sem er á Íslandi. Þetta er svona álíka og að krefja Austfirðing, sem dvalið hefur innan fjórðungsins frá því að faraldurinn byrjaði, um að fara í sóttkví við komuna til Reykjavíkur.

Svo ég svari spurningunni sem ég varpaði fram:

Kröfur um sóttkví fyrir þá sem koma til landsins væri hægt að leggja af, ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Viðkomandi hefur ekki smitast á undangengnum 6 vikum og hefur ekki umgengist þekktan smitbera undanfarnar 3 vikur. Þetta yrði að staðfesta við miðakaup.

2. Ný smit í landi/landsvæði sem ferðamaður kemur frá (búsetuland eða viðkomuland) eru hlutfallslega fá (eða engin) miðað við heildarfjölda smita í viðkomandi landi/landsvæði. Höfum í huga að stór landsvæði/héruð hafa komið mjög vel út úr faraldrinum og því ekki eðlilegt að þau séu sett undir sama hatt og önnur innan sama lands. T.d. er mikill munur á Norður-Írlandi og Englandi, Kaupmannahöfn og Norður-Jótlandi, Stokkhólmi og Gautlandi, Helsinki og norður hluta Finnlands og svona mætti lengi telja.

3. Það sé mat íslenskra sóttvarnayfirvalda að stjórnvöld í landi sem ferðast er frá/um hafi það góða stjórn á aðstæðum að hverfandi líkur séu á því, að ferðamaður smitist við ferðalag frá heimili í flug eða við að skipta á milli flugvéla, þegar um tengiflug er að ræða.

Miðað við þetta yrði krafa um 14 daga sóttkví fyrst um sinn ófrávíkjanleg fyrir ferðamenn frá sumum löndum, en mætti algjörlega sleppa gagnvart ferðamönnum frá öðrum löndum. Gera mætti ráð fyrir að flestir ferðamenn kæmu frá „öruggum“ svæðum og reglan um 14 daga sóttkví ætti bara við fáa. Auk þess sem krafan um 14 daga sóttkví þýðir í reynd að ferðamaður myndi ekki sækja Ísland heim. Því er spurning hvort beita mætti mildari ráðstöfunum til að draga úr líkum á að ferðamenn sem óaðvitandi bera smit dreifi því um landið. T.d. væri hægt að vera með skyndiskimun og meðan niðurstöðu er beðið, þá dvelji viðkomandi á hóteli sem sóttvarnayfirvöld velja en á kostnað viðkomandi ferðamanns. Ein nótt ætti að duga og viðbótarkostnaður fyrir ferðamanninn því í lágmarki. Þar sem líklega kæmu fáir til landsins, sem vissu að slík móttaka biði þeirra, þá er mögulegt að eitt eða tvö hótel dygðu undir þessa ferðamenn. Komi í ljós við skimun að ferðamaður er smitaður, þá verði hann fluttur á sóttvarnahótel, þar sem hann dvelur í 14 daga á eiginn kostnað. Hitt er að samkvæmt upplýsingum sóttvarnalæknis, þá hefur enginn erlendur ferðamaður verið valdur að samfélagssmiti á Íslandi. Ekki að mælt sé með því að engin varúð sé höfð, en viðbrögð verða að vera í samræmi við áhættuna. (Áhætta er síðan fengin út frá líkindum af því að ógnin raungerist og stigi áhrifa af ógninni.)

Næsta spurning er hvort hægt væri að koma á nægum aðskilnaði farþega í flugi og flugstöðvum til að koma í veg fyrir smit á milli farþega. Það er flóknara úrlausnarefni en hægt sé að gera skil í stuttum pistli.

Greinin birtist fyrst á Faccebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: