Stjórnmál

„Hvar var forseti þingsins þá?“

By Miðjan

March 12, 2021

„Ég kem hér upp til að bera af mér sakir þegar þingmenn stjórnarflokkanna og hæstvirtur heilbrigðisráðherra sakar mig um að hafa brotið trúnað. Í fréttatilkynningu sem hangir inni á vef Stjórnarráðsins stendur að í þingskapalögum sé afdráttarlaust kveðið á um að trúnaður skuli ríkja um málefni sem rædd eru á lokuðum nefndarfundum. Í þingskapalögum er talað um að það eigi ekki að vísa í orð einstaklinga. Þetta er tvennt ólíkt. Ef við fengjum ekki að ræða þau málefni sem eru til umfjöllunar í nefndum værum við aldrei að ræða nein málefni á opinberum vettvangi. Það er bara svo skýrt. Og af því að hv. þm. Birgir Ármannsson kom hingað upp og sagði að að sjálfsögðu mætti ekki gera þetta þá ætla ég, með leyfi forseta, að fá að vitna í ræðu hans sem flutt var 28. janúar 2021 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ég var akkúrat á fundi í velferðarnefnd þegar Samtök atvinnulífsins komu til að gera grein fyrir sinni umsögn og ég gat ekki skilið fulltrúa þeirra þannig að samtökin legðust gegn því að farið væri í afmarkaðar breytingar núna …“

Ég leyfi mér líka, leyfi forseta, að vitna í hæstvirtan heilbrigðisráðherra sem sagði í ræðu 5. desember 2014:

„En ég tók eftir því þegar læknar komu á fund velferðarnefndar að þeirra áhyggjur snerust ekki einungis í raun og veru um launakjör heldur ekki síður um skort á framtíðarsýn fyrir heilbrigðiskerfið í heild.

Hvar, herra forseti, var forseti þings þá eða aðrir þingmenn þegar þessir þingmenn rufu meintan trúnað?“