- Advertisement -

Hvar á fólk á vanskilaskrá að búa?

Gunnar Smári skrifar: „Ég er núna með sömu laun í krónum talið og ég var með fyrir Hrun. Þetta voru ágæt laun þá en eru núna nær lágmarkslaunum. En ég borga næstum tvöfalt meira í leigu. Samt hef ég flutt úr bænum heim í Búðardal þar sem leiguverð er miklum mun lægra. Svona íbúð myndi örugglega kosta tvöfalt meira í bænum,“ segir Jónína Kristín Guðmundsdóttir, sem leigir íbúð í raðhúsi við Lækjarhvamm í Búðardal af Almenna leigufélaginu. Þar býr hún ásamt níu ára gömlum syni sínum, Jóni Leví.

Jón Leví fæddist í Hruninu. Jónína Kristín varð ólétt 2008 og Jón Leví kom í heiminn í miðri kosningabaráttunni í apríl 2009. Fyrir Hrun var Jónína Kristín móttökustjóri á Hótel Óðinsvéum og leigði íbúð í Reykjavík. En hún flutti heim til mömmu sinnar í Búðardal til að eignast barnið. Sumarið eftir flutti hún svo aftur í bæinn, leigði íbúð sem afi hennar og amma áttu. Hún var í fæðingarorlofi og naut þess, hafði haft góðar tekjur og gat því vel séð fyrir sér og barninu. Svo kláraðist fæðingarorlofið og Jónína Kristín fann enga vinnu. Hún var stödd í miðju mesta atvinnuleysi Íslandssögunnar.

Atvinnulaus í meira en tvö ár

„Þar sem ég var ein með barn gat ég ekki unnið vaktavinnu og ég gat heldur ekki tekið að mér ábyrgðarstörf, þar sem fyrirtæki vilja hafa aðgang að yfirmönnum allan sólarhringinn. Ég leitaði og leitaði en fann bara enga vinnu,“ segir Jónína Kristín. Og tíminn leið, mánuðir og ár. Hún var atvinnulaus í meira en tvö ár.

Samt hef ég flutt úr bænum heim í Búðardal þar sem leiguverð er miklum mun lægra. Svona íbúð myndi örugglega kosta tvöfalt meira í bænum.

Leiddist ekki eina sekúndu

„Fólk spurði mig oft hvort þetta tæki ekki á sálina, að hafa enga vinnu,“ segir Jónína Kristín, „en það truflaði mig ekki þannig séð að hafa ekki vinnu. Ég hafði fullt að gera, var með lítið barn og leiddist ekki eina sekúndu. En blankheitin voru að drepa mig. Það var ekki fræðilegur möguleiki á að við gætum lifað af atvinnuleysisbótum. Ég safnaði því upp skuldum, skuldum sem ég er enn að draga á eftir mér.“

Misstum framfærsluna 

Jónína Kristín segist stundum fá að heyra að hennar skuldir séu ekki Hrunskuldir, heldur eitthvað sem fólk kallar neysluskuldir. Hún blæs á það. „Ég var ein af þeim sem festust í atvinnuleysinu eftir Hrun, við misstum framfærsluna og átum fyrst upp allt sem við áttum og byrjuðum svo að safna upp skuldum. Það sem við skulduðum fyrir veltum við áfram með vöxtum og vaxtavöxtum, innheimtukostnaði og tilheyrandi. Það hefur aldrei komið til tals að hjálpa okkur, það er látið eins og okkar skuldir séu okkur að kenna en ekki Hruninu. Ég veit hins vega mæta vel að flestar skuldirnar mínar eru Hrunskuldir. Ef ég hefði ekki þurft að komast í gegnum þessi ár án vinnu og á smánarlegum atvinnuleysisbótum með lítið barn myndi ég ekki skulda jafn mikið í dag,“ segir Jónína Kristín.

Hætti að borga

Hún segir að starfsmaður í bankanum hafi ráðlagt henni að hætta að borga og leita til umboðsmanns skuldara. Hún hætti að borga, en kláraði aldrei málin gagnvart umboðsmanni. Eftir á að hyggja hafi þetta ráð reynst henni illa. Skuldin fór í árangurslaust fjárnám og nú er Jónína Kristín á vanskilaskrá. Vegna skuldar við bankann sem ráðlagði henni að hætta að borga.

Eftir N1 varð Jónína Kristín dagmamma á Búðardal, leigði íbúð inn í þorpinu. Síðan hefur hún misst þá íbúð, bankinn tók hana af eigendunum, og flutt út í sveit og aftur til baka.

Fólk á vanskilaskrá er því á leigumarkaði

Og það er alvarlegt fyrir leigjanda að vera á vanskilaskrá. Leigufélögin krefjast þess að fá upplýsingar um vanskil, sakavottorð, lánshæfismat og allt sem þeim dettur í hug. „Í raun þurfa leigjendur að sanna að þeir geti allt eins keypt íbúðina eins og að leigja hana,“ segir Jónína Kristín. „Sá sem er á vanskilaskrá á ólíklega íbúð, það væri búið að taka íbúðina af honum. Fólk á vanskilaskrá er því á leigumarkaði, en þar getur það ekki verið vegna þess að það er á vanskilaskrá. Hvar á þetta fólk þá að búa? Þetta er algjörlega klikkað kerfi.“

„Á algjöru skítakaupi“ 

Eftir tvö ár af atvinnuleysi í bænum með lítið barn settu afi og amma Jónínu Kristínar íbúðina sem hún leigði á sölu. Og hún seldist strax. Jónína Kristín flutti þá aftur heim í Búðardal. Bjó hjá mömmu sinni og fékk vinnu í Staðarskála hjá N1. „Á algjöru skítakaupi,“ segir hún, „þegar ég dró frá kostnaðinn við að keyra fram og til baka frá Búðardal þá var ég með lægri tekjur hjá N1 en ég var með á atvinnuleysisbótunum, þrátt fyrir vaktavinnu. Fyrirtækin komast upp með að greiða starfsfólki sínu laun sem duga ekki fyrir framfærslu. Það er enn ein klikkunin.“

Húsaeigan er fyrsti reikningurinn

Eftir N1 varð Jónína Kristín dagmamma á Búðardal, leigði íbúð inn í þorpinu. Síðan hefur hún misst þá íbúð, bankinn tók hana af eigendunum, og flutt út í sveit og aftur til baka. Hún hefur unnið á leikskólanum, reynt fyrir sér í ferðamennsku og starfar nú sem skólaritari við grunnskólann. Fyrir jólin 2014 skrifaði hún Kletti, leigufélagi Íbúðalánasjóðs, bréf og sagðist vita að hún uppfyllti ekki skilyrði til að fá leigða íbúð sem félagið átti í Búðardal vegna þess að hún væri á vanskilaskrá. En hún hefði aldrei skuldað húsaleigu, það væri alltaf fyrsti reikningurinn sem hún borgaði. Og hún lofaði að gera allt sem Klettur vildi svo hún fengi þessa íbúð.

„Þau svöruðu strax og sögðust ætla að gera allt sem þau gætu til að ég fengi íbúðina,“ segir Jónína Kristín. „Og ég fékk hana. Og síðan hef ég búið hér. Jón Leví hefur ekki búið lengur á sama stað.“

En svo seldi Íbúðalánasjóðir Klett inn í Almenna leigufélagið, hagnaðardrifið félag sem rekið er af Gamma. Og þá kom annað hljóð í skrokkinn. Leigan hækkaði, leigusamningarnir voru ekki ótímabundnir eins og áður heldur aðeins gerðir í eitt ár í senn. Og öllum erindum leigjanda var svarað með nei-i eða með einhverju þjarki.

Þá kom annað hljóð í skrokkinn

Jónína Kristín talar vel um Klett, óhagnaðardrifna leigufélagið sem Íbúðalánasjóður myndaði utan um þær íbúðir sem sjóðurinn hafði tekið af fólki. Hún segir Klett hafa byggt pall bak við raðhúsin, málað húsin og haldið húsunum við. „Maður gat hringt og bent á ýmislegt og þau tóku vel í öll erindi,“ segir Jónína Kristín. En svo seldi Íbúðalánasjóðir Klett inn í Almenna leigufélagið, hagnaðardrifið félag sem rekið er af Gamma. Og þá kom annað hljóð í skrokkinn. Leigan hækkaði, leigusamningarnir voru ekki ótímabundnir eins og áður heldur aðeins gerðir í eitt ár í senn. Og öllum erindum leigjanda var svarað með nei-i eða með einhverju þjarki.

Bent á að flytja út

„Ég benti þeim á að það væru rakaskemmdir í vegg í þvottahúsinu og þá var mér boðið þriggja mánaða uppsagnarfrestur, ég gæti bara flutt út,“ segir Jónína Kristín. „Hvert átti ég að fara? Það er ekkert húsnæði laust á Búðardal. Ég benti leigusalanum á að hann yrði að sinna viðhaldi og hann vildi henda mér út.“

Óvissan er nagandi

Jónína Kristín segir að óvissan á leigumarkaði sé nagandi. Hún segist ekki geta hugsað til þess að missa íbúðina. Jóni Leví líði vel í Búðardal, hann er með ákveðnar sérþarfir og fær frábæra þjónustu í skólanum í Búðardal. Ef þau missa íbúðina yrði hún að rífa Jón Leví upp með rótum og flytja eitthvert burt. Leigjendur standa veikt gagnvart leigusölum. Þeir geta misst húsnæðið bara vegna þess að einhver reiknaði það út að leigufélagið gæti grætt á því. „Ég hélt að þetta væri einfalt samkomulag,“ segir hún. „Ef ég borga leiguna skilvíslega þá fái ég að búa hér í friði. En það er alltaf þessi ógn hangandi yfir, að allt í einu séu það hagsmunir leigufélagsins að gera eitthvað allt annað, selja íbúðina eða henda mér út og leigja hana svo enn dýrara einhverjum öðrum. Það er slítandi að búa við þetta.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: