Fréttir

„Hvar eru íslenskir ráðamenn hér og nú?“

By Miðjan

May 16, 2023

Inga Sæland og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Inga Sæland kom í ræðustól þingsins í dag og var að venju mikið niðri fyrir. Ástæðan var brýn.

„Það er aldeilis líf og fjör í borginni okkar í dag. Það er erfitt að komast um og við erum að taka á móti öllum helstu ráðamönnum Evrópu, Evrópuráðinu nánast eins og það leggur sig með öllu sem því fylgir. Við ætlum að færa úkraínsku þjóðinni færanlegt sjúkrahús til að bjarga því sem bjargað verður á vígvellinum í þeirri ógn og þeim hryllingi sem þar ríkir. Ég segi, virðulegi forseti: Við getum gert svo margt fyrir marga en stundum væri líka allt í lagi að líta okkur nær.

Hvenær hefur forsætisráðherra kallað saman alla formenn þingflokkanna og óskaði eftir því að við legðum huga okkar og hjarta í það að reyna að vernda og koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll ungmenna af völdum ópíóíða? Hvenær hefur það gerst? Ég segi: Ef við getum þetta þá getum við gert svo miklu, miklu meira. Hvar eru ráðamennirnir okkar núna þegar við þurfum að taka utan um samfélag okkar, sem blæðir í okurvöxtum og verðbólgu, og unga fólkið okkar sem deyr ótímabærum dauða á besta aldri, þar sem er búið að eitra fyrir því, bæta eitri, Fentanyl, út í kókaín hjá einstaklingum sem eru ekki einu sinni fíklar og eru jafnvel að prófa í fyrsta eða annað sinn að djamma með einhverju eitri? Það er dauðans alvara fyrir þau. Hvar eru íslenskir ráðamenn hér og nú? Hvar eru þeir?

Ef við erum bær til að gera allt fyrir alla þá eigum við líka að gera það hér heima og sannarlega ekki síður en annað,“ sagði Inga Sæland á Alþingi fyrr í dag.