„Þar ræðir um þingsályktunartillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu,“ segir í leiðara Moggans í dag. Mogginn er andsnúinn tillögu forsætisráðherra, sem meðal annars skikkar opinbera starfsmenn á námskeið í viðleitni til að útrýma hatursorðræðu.
„Samt er það svo að í þinginu hefur enginn nema Miðflokkurinn bent á hætturnar, sem fylgja þessari þingsályktunartillögu. Frjálsræðishetjurnar í Sjálfstæðisflokknum virðast ekkert kippa sér upp við þetta og þingaðgerðasinnar Pírata ekki heldur,“ spyr leiðarahöfundur, sem að venju gefur ekki upp nafn sitt.
Lesum aðeins meira:
„Eru þó næg dæmi utan úr heimi um hvernig svona fyrirætlanir snúast undantekningarlaust upp í andhverfu sína, en hér heima þekkjum við vel hvernig menn flokka umræðuna eftir því hvort hún hittir þeirra menn fyrir eða hina. Og hver á að dæma um hvað er hatursorðræða og hvað beinskeytt umræða? Flokkshestar Vinstri-grænna?“
Mogginn er sýnilega ósáttur með eigin þingmenn. Vill að þeir verji blessað frelsið betur en svo að láta tillögu Katrínar yfir sig ganga. Svo langt teygir Mogginn sig að freistar þess að fá hjálp frá Pírötum.