„Hvar er góðærið, hvert fór það?“
Þúsundir Íslendinga á ótal biðlstum. „Það er biðlisti eftir húsnæði hjá Brynju.“ „Það er biðlisti eftir aðgerðum á Landspítalanum.“ „Í febrúar voru 17 konur á biðlista eftir brjóstnámsaðgerð.“
„Það er bið eftir leiðréttingu lífeyrislauna. Enn bíða aldraðir eftir að kjaraskerðing og kjaragliðnun kreppuáratímans frá 2009–2013 verði leiðrétt, hvað þá að kjaraskerðing frá 2013–2018 verði einnig leiðrétt eins og alþingismenn og aðrir hafa fengið. Þá er einnig bið eftir að hætt verði að skerða lífeyrissjóðslaun aldraðra og öryrkja hjá TR vegna greiðslu úr lífeyrissjóði orðin löng. Skerðingarnar bitna mest á láglaunakonum,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins á Alþingi, fyrir augnabliki.
„Það er biðlisti eftir húsnæði hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Þar eru nú um 400 manns á biðlista, aðeins þeir sem eru 75% öryrkjar fá að leigja húsnæði hjá sjóðnum. Um þúsund bíða eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík, þar af um 250 barnafjölskyldur, þar af eru 400 börn. 50% hafa beðið í tvö ár, en hugsið ykkur, 20% hafa beðið í fimm ár eða lengur,“ sagði þingmaðurinn.
Og hann var ekki hættur: „Það er biðlisti eftir aðgerðum á Landspítalanum eins og ég sagði í gær. 709 eru á biðlista eftir gervilið í hné, 340 karlar og 369 konur. Af þessum 709 hafa 465 beðið lengur en þrjá mánuði, eða 66%. Í febrúar 2018 voru 385 á biðlista eftir gervilið í mjöðm á tilgreindum aðgerðastöðum. Í febrúar 2018 voru 72 karlar og 29 konur á biðlista eftir hjarta- eða kransæðamyndatöku. Árið 2017 voru gerðar 96 aðgerðir á hjartalokum. Nú í febrúar voru 38 á biðlista, 22 karlar, 16 konur og töluvert fleiri en verið hafa. Og nú eru 1.085 á biðlista eftir skurðaðgerð á augnsteinum.“
„Í febrúar voru 17 konur á biðlista eftir brjóstnámsaðgerð, 35% þeirra höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Í febrúar 2015 biðu 49 konur eftir aðgerð til brjóstaminnkunar á Landspítalanum eða Sjúkrahúsinu á Akureyri. Nú bíða 83. Bið eftir brjóst…aðgerðum er enn þá meiri. Ég spyr, hæstvirtur forseti: Hvar er góðærið, þingmenn ríkisstjórnarinnar? Hvert fór það? Í hvaða vasa?“