Hvalveiðin eru í pólitískum drullupolli
Vilhjálmur Birgisson skifar:
Ég trúi ekki öðru en að núverandi matvælaráðherra gefi út hvalveiðileyfi eins og stjórnsýslulög kveða skýrt á um.
Ég trúi ekki heldur að Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig við frelsi einstaklinga og fyrirtækja ætli að feta í fótspor Svandísar Svavarsdóttur og Bjarkeyjar Ólsen fyrrverandi matvælaráðherra og þverbrjóta stjórnsýslulög og 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar sem lýtur að atvinnufrelsi einstaklinga og fyrirtækja.
Það er ömurlegt að verða vitni að þeim pólitíska drullupolli sem hvalveiðimál er komin í enn og aftur því það sorglega í þessu öllu saman er að einu raunverulegu fórnarlömbin í þessum pólitíska drullupolli eru uppundir 200 fjölskyldur sem byggja lífsafkomu sína á veiðum og vinnslu hvalaafurða þá fjóra mánuði sem vertíðin stendur yfir.
Starfsfólkið er ekki einu fórnarlömbin heldur Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit og nærsamfélögin. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á að útflutningstekjur hvalaafurða frá 2010 eru núvirt 21 milljarður. En stór hluti þeirra fjármuna verður eftir í nærsamfélögunum.
Ég skora á matvælaráðherra að fara að lögum og gefa út hvalveiðileyfi til næstu 5 ára því ég trúi ekki að ráðherrar og framkvæmdavaldið ætli að halda áfram að þverbrjóta lög sem gilda hér á landi. Munum að með lögum skal land byggja og það gildir líka gagnvart ráðherrum og framkvæmdavaldinu!