„Ég hef áður sagt að ég telji að það þurfi að fara betur yfir hvalveiðibannið og vænti þess að slíkt verði gert. Hugsanlega verði ákvörðunin endurskoðuð. Þetta er hins vegar afmarkað mál og ég tel að í öllum samsteypustjórnum sé viðvarandi verkefni að jafna ágreining af einhverjum toga. Ekki síst verður raunin sú þegar jafn ólíkir flokkar og nú standa að ríkisstjórn. Jú, oft er málefnalegur ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar en aldrei þó þannig að alvarlega hafi slegið í brýnu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson í nýju Moggaviðtali.
Svandís Svavarsdóttir hefur hvergi opnað á að það verði gert. Vitað er að bannið legst illa í Bjarna og hans lið. Og nú að Sigurður Ingi gengur í takt við Bjarna í þessu máli.
Hér er önnur tilvitnun í viðtalið:
„Meðal ráðherra ríkisstjórnarinnar er sterkur vilji til þess að láta samstarfið ganga upp, enda þótt ágreiningur hafi verið um einstaka mál. Í stærstu og mikilvægustu verkefnum ríkisstjórnarinnar, sem eru efnahagsmálin og baráttan við verðbólguna, erum við hins vegar samstiga.“
Í skoðanakönnunum um þessar mundir mælist stuðningur við ríkisstjórnina vera lítill sem og fylgi við flokkana þrjá sem að henni standa. Sérstaklega er deilt á ríkisstjórnina vegna Lindarhvolsmálsins svokallaða, sölu á hlut ríksins í Íslandsbanka og svo vegna þeirrar ákvörðunar matvælaráðherra að stöðva hvalveiðar, aðeins sólarhring áður en þær áttu að hefjast.
Ráðherrar segja stopp Ísland. Lesið áfram:
„Innviðaráðherra segir að frá og með þessari viku megi segja að stjórnkerfið og pólitíkin séu komin í sumarfrí. Hann vænti þess að fólk noti næstu vikur til að safna kröftum til þeirra verkefna sem bíða í haust.“
Verður Ísland þá stjórnlaust í einhverjar vikur? Eða bara hin ósamstíga ríkisstjórn.
Hvað bíður fram yfir sumarfrí stjórnsýslunnar?
„Þar verður staða efnhagsmála efst á blaði og verðbólgan sem núna er komin í 8,9%. Spár gera ráð fyrir að hún lækki frekar á næstu mánuðum. Fjárlög næsta árs og peningastefna Seðlabankas eiga að styðja við slíkt. Þá hefur gengi krónunnar verið að styrkjast og með innflutningi ættu áhrif af því til lækkunar verðbólgu að koma fljótlega fram,“ segir formaður Framsóknar í Moggaviðtalinu.