„Þetta er bara ákvörðunin sem er búið að taka og við sitjum uppi með hana. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt líka að það sé fyrirsjáanleiki í ákvörðunum og ákvörðunartöku. Nú er þetta leyfi til fimm ára og við eigum bara eftir að ræða þetta, bara hreint út sagt. Við eigum eftir að ræða þetta leyfi,“ sagði Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is um hvalveiðar.
Kemur það til greina af þinni hálfu, verði þessi ríkisstjórn að veruleika, að banna hvalveiðar með lagasetningu?
„Ég bara vil helst ekki tjá mig um þetta. En verandi þeirrar skoðunar sem ég er, varðandi hvalveiðar, að þá er líka allt hringl, mér finnst það ekki ábyrgðarfullt – hringl í stjórnsýslu.“
Hvað áttu við?
„Mér finnst fyrirsjáanleiki fyrir fólk og fyrirtæki skipta máli. Við eigum eftir að ræða þetta, við stelpurnar. Það er svona aðeins áherslumunur á skoðunum til hvalveiða og við erum þar, en það er bara best að segja sem minnst í því eins og staðan er núna,“ segir Þorgerður.
Spurð hvort hvalveiðar séu því ekki forgangsmál segir Þorgerður:
„Við munum ræða þetta að sjálfsögðu. En núna erum við að ræða þessa slöku afkomu sem þessi ríkisstjórn skilur eftir sig og þessar nýjustu tölur frá fjármálaráðuneytinu,“ segir Þorgerður.
Sem kunnugt er gaf Bjarni út hvalveiðileyfi til fimm ára sem endurnýjast sjálfkrafa á hverju ári. Þannig að leyfið verður alltaf til fimm ára.