„Svei þér Kristján Þór, svei þér Katrín.“
„Er hér er á ferðinni einhver mesta hvalaslátrun sem sögur fara af síðustu áratugi. Fullgengnir kálfar sprengdir, tættir eða kæfðir. Og, eins og ég kom inn á, veiðir engir önnur þjóð veraldar langreyðina, næststærsta spendýr jarðar.“
Svo segir í grein eftir Ole Anton Bieltvedt og birt er í Mogganum í dag. Hann segir að ákveðið hafi verið að heimilt verði að; „…slátra á allt að 2.135 dýrum, mörgum með þeim hörmulegu limlestingum og kvalræði, sem þekktar eru, 2019-2023.“
Ole Anton er ekki sáttur með ráðafólkið og skrifar: „Svei þér Kristján Þór, svei þér Katrín; gagnvart ykkur – reyndar gagnvart allri ríkistjórninni – getur ekki nema eitt boð gilt: Takið staf ykkar og hatt og komið ykkur á brott.“
Ole Anton birtir neikvæðar niðurstöður skoðanakannanna sem hann hefur haft nokkuð fyrir að komast yfir. Einkum varðar ferðaþjónustuna.
„Auðvitað höfðu sjávarútvegsráðherra, forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll fullan aðgang að þessum upplýsingum, en í stað þess að birta þær og hafa þær að leiðarljósi við ákvörðun um hvalveiðar, voru upplýsingarnar ekki birtar – þær í raun faldar fyrir almenningi – og ákvörðun tekin um að heimila stórfelldar nýjar hvalveiðar, til langs tíma, þvert á hagsmuni langstærstu atvinnugreina landins og þar með þvert á hagsmuni allra Íslendinga,“ skrifar Ole Anton.