„Hvaða embættismaður afvegaleiðir hvern ráðherra og þingmann Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum“
„Spurning mín er þessi: Hvaða embættismaður afvegaleiðir hvern ráðherra og þingmann Sjálfstæðisflokksins á fætur öðrum, alveg purkunarlaust? Fátt hefur valdið íslenskri þjóð meira tjóni af mannavöldum, ef nokkuð. Hver er maðurinn?“
Þannig endar ný Moggagrein Einar S. Hálfdánarsonar, félaga í Sjálfstæðisflokki.
„Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir einu og hálfu ári lagði ég til að lögum yrði framfylgt að þessu leyti. Fámennur hópur fundarmanna lagðist með miklum þunga gegn því og gekk mjög hart fram. Þrátt fyrir það varð niðurstaðan sú að ég hafði yfirhöndina í mjög fjölmennum hópi sem gekk frá þessum hluta ályktunar landsfundar Sjálfstæðisflokksins. „Samræmingarnefnd“ breytti þó eða felldi öllu heldur úr gildi umrædda ályktun á síðustu stundu. Eigum við að nefna hið ofnotaða orð ofbeldi? Hvað sem því líður; einhver versti reki sem á fjörur Sjálfstæðisflokksins hefur rekið, Davíð Þorláksson, forstjóri borgarlínunnar, fór fyrir undirferlum sem urðu til þess að svo fór,“ segir í grein Einars.
„Hvað veldur valkvæðri lagabeitingu á Íslandi trekk í trekk? Ríkissaksóknari notar kolröng (að ég tel með ásetningi) gögn til að koma fram handtöku og framsali konu skömmu fyrir jól til vistar í erlendu fangelsi og að flytja stálpuð börn hennar nauðug til útlanda. Hatursummæli erlendra ríkisborgara, m.a. um samkynhneigt fólk, fara fyrir ofan garð og neðan, en ekki forpokuð ummæli Íslendinga um sama efni. Kærunefnd útlendingamála brýtur gróflega gegn ákvæðum útlendingalaga og alþjóðasamningum með margra tuga milljarða króna kostnaði, en þá bregður svo við að ríkissaksóknari lætur sér býsna vel líka. – Hvað er að á Íslandi? Hvað er að?“
Hver er andlitslausi embættismaðurinn?
„Með mikilli virðingu fyrir þáverandi dómsmálaráðherra, Jóni Gunnarssyni, tel ég fullvíst að hann hafi talað í góðri trú gegn því að flugfélög væru krafin um farþegalista við komu til landsins. Allir vita að farþegalistar eru ein mikilvægustu gögnin sem yfirvöld geta byggt á til að koma í veg fyrir komu glæpamanna, mansal og tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd (svonefnt hæli). Af langri reynslu tel ég að andlitslausi og nafnlausi embættismaðurinn standi að baki röngum skilningi á tollalögum. Í næstu grein mun ég fjalla um þekkingarleysi andlitslausa og nafnlausa embættismannsins á Schengen og landamæralögunum,“ segir í grein Einars.
Greinin er lengri í Mogganum og er ekki birt hér í þeirri röð sem er í greininni.