Halldór Benjamín Þorbergsson skrifar langa grein í Mogga dagsins. Þar finnur mjög að því að Efling beiti sér gegn launaþjófnaði. Halldór Benjamín notar ódýrasta trixið. Hann kýs að segja að Efling saki alla launagreiðendur um að stela af launum starfsmanna. Sem er kolrangt.
„Auglýsingaherferð Eflingar hefur það markmið að stilla atvinnurekendum og starfsmönnum upp sem andstæðingum. Atvinnurekendur séu upp til hópa brotamenn sem veigri sér ekki við að hlunnfara starfsfólk sitt. Sú mynd sem Efling dregur upp af stjórnendum fyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins (SA) er bæði ómálefnaleg og veruleikafirrt.“
Þannig skrifar Halldór Benjamín. Meiri mannsbragur væri á honum ef hann legðist á árarnar með Eflingu og hjálpaði til við að stöðva þá sem stunda launaþjófnaðinn. Hann þykist hins vegar vera móðgaður.
„Þótt nefna megi dæmi um brotlega atvinnurekendur þá er það staðreynd að í yfirgnæfandi meirihluta tilvika stofna einstaklingar og reka fyrirtæki af heilindum. Þeir vilja búa til verðmæti fyrir samfélagið, skapa störf og koma vel fram við sitt starfsfólk. Hagsmunir atvinnurekenda og starfsmanna liggja saman. Þegar fyrirtækjum landsins vegnar vel vegnar starfsmönnum einnig vel og raunar samfélaginu öllu,“ skrifar Halldór Benjamín.
Hann verður að átta sig á að þó minnihlutinn stundi launaþjófnað verður samt að stöðva áfergju þeirra í laun starfsmanna.
Hvað vill Halldór Benjamín? Að ekkert verði fjallað um og ekkert verði gert til að stöðva launaþjófana? Svo má aldrei verða.
-sme