Hvernig á maður að auðgast á Íslandi ef maður má ekki stela úr lífeyrissjóðunum? spyr Kasper.
Gunnar Smári skrifar:
Halló, er Seðlabankastjóri að vakna vegna þess að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur bent á stórkostlega misnotkun þröngrar klíku í viðskiptalífinu á lífeyrissjóðunum? Er hann núna loksins að vakna vegna stórkostlegrar misnotkunar Kaupthingsbanka á sjóðunum meðan hann var þar starfsmaður? Er hann að vakna vegna svívirðilegs taps sjóðanna í Hruninu, um 700 milljarðar króna á núvirði? (Það eru um 7,5 m.kr. á hverja 4ra manna fjölskyldu.) Er hann að vakna vegna taps sjóðanna vegna United Silicon og fyrirsjáanlegs taps þeirra vegna Bakka? Er hann að vakna vegna þess hvernig braskarar höfðu blóðmjólkað sjóðina á undanförnum árum með því að draga úr þeim fé með kaupum á stórkostlega ofmetnum hlutabréfum í rútufyrirtækjum eða öðrum ferðaskrifstofufyrirtækjum?
Nei.
Seðlabankastjóri rumskar vegna þess að Ragnar Þór hefur bent á þjófræðið sem hér ríkir; hvernig fáeinir menn í gegnum áhrif sín innan bankakerfis, viðskipta og lífeyrissjóðanna hafa dregið sér fé úr almannasjóðum með kerfisbundnum hætti árum og áratugum saman. Og hvað gerir Seðlabankastjóri? Hann ver þjófræðið.
Við búum við það sem kallað er þjófræði. Þau sem sölsað hafa undir sig auðlindum almennings og stjórn almannasjóða stjórna ríkisvaldinu og nota það til að verja áframhaldandi þjófnað. Í þjófræðinu er hlutverk Seðlabankastjóra að verja þjófnaðinn. Í þjófræðinu er það hlutverk ríkisvaldsins að verja þjófana, ekki almenning.
Þegar hin ríku ná undir sig ríkisvaldinu kallast það auðræði. Þegar ríkisvaldinu er beitt til að styrkja völd fámennrar klíku er það kallað fáveldi. Þegar stjórn ríkisins snýst orðið um að færa almannaeigur og almannasjóði undir hin fáu kallast það þjófræði. Við erum þar. Í þjófræðinu er engin Soffía frænka til að siða þjófana. Kasper, Jesper og Jónatan stjórna Kardemommubænum og öllum stofnunum hans. Líka lífeyrissjóðunum.
Fullyrðing um þörf á þéttari vörum kringum lífeyrissjóðina innan þjófræðisins merkir að þjófarnir vilja verja vald sitt yfir sjóðunum. Hvernig á maður að auðgast á Íslandi ef maður má ekki stela úr lífeyrissjóðunum? spyr Kasper.