- Advertisement -

Hvað má krónan kosta?

Ég verð að viðurkenna að mér blöskrar hversu mikill þessi gengismunur er fyrir ekki merkilegri hlut en að greiða reikninga í evru eða dollar með kortinu mínu.

Verið er að brjóta niður landamæri í bankaviðskiptum með tilheyrandi sparnaði fyrir neytendur.

Þorsteinn Víglundsson skrifar:

Stjórnmálamenn, sem mæra krónuna okkar, tala sjaldan um það hvað hún kosti okkur. Ég held að það sé full ástæða til að skoða það aðeins og spyrja okkur hvað gjaldmiðillinn megi kosta. Í gær birti ég mynd af vaxtamun krónunnar við aðrar myntir sem kostar okkur um 200 milljarða króna á ári. Annar kostnaðarliður, þó öllu minni sé, er það álag sem við borgum fyrir að nota kortin okkar erlendis eða að greiða í erlendri mynt, t.d. þegar við verslum á netinu.

Bankarnir/kortafyrirtækin taka um 3-4% álag ofan á skráð gengi krónunnar hverju sinni fyrir umstang sitt í alþjóðlegri greiðslumiðlun. Miðað við erlenda kortaveltu okkar Íslendinga greiðum við því um 6 milljarða króna á ári í krónuskatt á kreditkortin okkar. Ég verð að viðurkenna að mér blöskrar hversu mikill þessi gengismunur er fyrir ekki merkilegri hlut en að greiða reikninga í evru eða dollar með kortinu mínu.

Myndin hér að neðan er tekin af almennu gengi og kortagengi sama banka á sama tíma. Þetta okurgjald endurspeglar líka þá litlu samkeppni sem er á íslenskum fjármálamarkaði, sér í lagi þegar kemur að viðskiptum einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Kostnaður okkar af því samkeppnisleysi er mun meiri en þessir 6 milljarðar.

Fram undan er bylting í fjármálaþjónustu með tilkomu alþjóðlegra fjártæknifyrirtækja. Þeim mun fylgja stóraukin samkeppni um bankaviðskipti einstaklinga á netinu. Verið er að brjóta niður landamæri í bankaviðskiptum með tilheyrandi sparnaði fyrir neytendur. Stóra spurningin fyrir okkur Íslendinga er hvort slík þjónusta verði í boði fyrir okkur hér í Krónulandi. Hingað til hafa erlendir bankar engan áhuga haft á því að sinna hér viðskiptum í íslenskum krónum.

Er ekki kominn tími til að spyrja hvað má krónan kosta?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: