„Hver ber ábyrgð á brotum erlendra lögreglumanna í starfi hér á Íslandi? Hvernig verður tryggt að erlendir lögreglumenn, sem gerast uppvísir að brotum í starfi, verði dregnir til ábyrgðar fyrir það brjóti þeir af sér hér á Íslandi? Hvaða reglur munu gilda um vopnaburð erlendra lögreglumanna sem mega fara með lögregluvald á Íslandi? Og hvað gerist t.d. ef erlendur lögreglumaður myndi skjóta íslenskan borgara? Hvernig færum við að því að greiða úr slíkri flækju? Mér fyndist a.m.k. mjög mikilvægt að við værum búin að velta öllum þessum spurningum fyrir okkur,“ sagði Birgir Þórarinsson Miðflokki þegar hann talaði um breytingar á lögreglulögum.
„Við værum búin að afmarka hvað myndi gerast og við værum a.m.k. búin að skilgreina nákvæmlega hvað lögregluvald felur í sér og hvernig hægt er að skipta því niður í mismunandi einingar og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að hluti af lögregluvaldi sé veittur eða allt lögregluvaldið, og þá nákvæmlega hvað það þýðir. Ég hef ekki fundið skilmerkilega né skýra skilgreiningu á því nákvæmlega hvað felst í því. Þótt auðvitað megi leiða það af hinum lögbundnu hlutverkum lögreglunnar o.s.frv. finnst mér ekki skýrt nákvæmlega hvað þetta þýðir og hvernig hægt er að skipta því upp og hvernig haft verður eftirlit með erlendum lögreglumönnum sem fá þetta vald í hendur, sér í lagi fyrst við erum ekki komin með, að ég tel, fullnægjandi sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu.“