Hvað finnst ykkur um þjónkun Íslands við NATÓ?
„Samt er það hlutskipti íslenskra stjórnvalda að vera í slíku faðmlagi, og það sem verra er, virðist líka það vel.“
Þetta er ein af mörgum fínum setningum í grein Ögmundar Jónassonar, sem birtist í Mogga morgundagsins. Þarm fjallar hann um Nató, sem hann segir að gleymst hafi að leggja niður.
„Ríkisstjórn Íslands heldur þannig áfram – móð af undirgefni – að skrifa upp á ofbeldi á heimsvísu, gekk meira að segja fram fyrir skjöldu nú alveg nýlega til að þóknast utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem vill setja nýjan forseta til valda í Venesúela, mann sem þykir hafa rétta þjónustulund til að bera. Og nú á að fara að þjarma að Íran sem illu heilli vill kjarnorkuvopn, svipuð þeim sem Bandaríkin og fleiri NATÓ ríki eiga í sínum búrum svo þúsundum skiptir!
Ekki nóg með þetta. Ríkisstjórn Íslands ætlar nú að bíta höfuðið af skömminni með því að bjóða enn opnari faðminn og heimila að nýju hernaðaruppbyggingu hér á landi í þágu ofbeldisafla heimsvaldastefnunnar.
Unga kynslóðin krefst aðgerða í umhverfismálum og það strax og undanbragðalaust.
Frábært!
En hvað skyldi hinu glaðbeitta unga baráttufólki hafa fundist um nýafstaðna heræfingu NATÓ hér á landi og um tilgangslaust loftrýmiseftirlit yfir Íslandi sem fyrst og fremst er sú leikfimisæfing hernaðarbandalags að hnykla vöðvana – um leið og það stígur mengunarsporið dýpra á einum degi en allir bændur Íslands hafa gert samanlagt í þúsund ár, en sem kunnugt er segja stjórnvöldin bændur bera meiri ábyrgð á hlýnun jarðar en aðrir menn hér á landi.
En ykkur spyr ég, krakkar, hvað finnst ykkur um þjónkun Íslands við NATÓ?“