- Advertisement -

Hvað er það sem veldur því að við erum eina þjóðin sem níðumst á neytendum með verðtryggðum húsnæðislánum?

Vilhjálmur Birgisson:

En hvaðan koma þessir 457 milljarðar sem innlenda eignasafn sjóðanna kveður á um? En ekki hvað frá almenningi, heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Efnahagsmál Hvað veldur því að við erum eitt dýrasta land í heimi og erum með verðtryggingu og þrefalt hærri vaxtakjör miðað við samanburðarlönd? Er það krónan eða er það kannski lífeyrissjóðskerfið?

Það er engum vafa undirorpið að alþýða, heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki þessa lands eru orðin langþreytt á því ástandi sem lýtur að því að ná endum saman frá mánuði til mánaðar.

Það vita það allir sem vita vilja að við Íslendingar búum í einu dýrasta landi í heimi og skiptir ekki máli hvort talað sé um matarverð, húsnæðisverð, vaxtastig, tryggingar eða aðrar nauðsynjar sem hvert heimili þarf að fjármagna til að framfleyta sér og sínum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En hvað veldur þessu háa vaxtastigi?

Svona hefur þetta verið ár eftir ár, áratug eftir áratug og menn spyrja sig hvað veldur því að þetta ástand er svona hér en ekki í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Af hverju erum við með húsnæðisvexti og önnur vaxtakjör áratugum saman sem eru jafnvel þrefalt hærri en í samanburðarlöndum? Af hverju erum við eina landið sem erum með verðtryggingu?

Hvað veldur því að stjórnmálafólk lætur þetta viðgangast áratugum saman án þess að breyta þessu til hagsbóta fyrir alþýðuna og heimili þessa lands. Hví er „kerfið“ að verja og viðhalda þessu ástandi á kostnað almennings, heimilanna og lítilla og meðalstórra fyrirtækja?

En hvað veldur þessu háa vaxtastigi? Hvað er það sem veldur því að við erum eitt dýrasta land í heimi? Hvað er það sem veldur því að við erum eina þjóðin sem níðumst á neytendum með verðtryggðum húsnæðislánum?

Sumir segja að orsök alls þessa sé íslenska krónan og ég spyr því af hverju eru ekki fengnir erlendir óháðir aðilar til að kanna hvort það sé orsökin? Er eðlilegt að við Íslendingar búum við þrjá gjaldmiðla? Er eðlilegt að útflutningsgreinarnar geti gert upp í erlendri mynt og tekið lán á allt öðrum kjörum en almenningur? Er eðlilegt að fjármálakerfið sé varið í bak og fyrir í gegnum verðtryggða krónu? Er síðan eðlilegt að almenningur þessa lands sé sá eini sem þarf að búa við íslensku krónuna ef það er rétt að orsök óstöðugleikans sé krónunni um að kenna. Til að fá úr þessu skorið þarf að finna erlenda óháða aðila til að taka gjaldmiðilinn okkar út og kanna kosti og galla þess að taka upp nýjan gjaldmiðil.

Getur verið að þetta sé kannski ekkert íslensku krónunni um að kenna heldur lífeyriskerfinu? Eitt liggur allavega fyrir að þegar verðtryggingin var sett á árið 1979 var talað um að það væri gert til að verja meðal annars lífeyriskerfið.

Þetta er galið og sést að það gengur ekki upp…

Skoðum örlítið íslenska lífeyriskerfið sem er sagt eitt það sterkasta í heimi og ekki ætla ég að þræta fyrir að það geti verið rétt. En það er ekki nóg að hafa öflugt lífeyriskerfi ef kerfið virkar þannig að á meðan fólk er á vinnumarkaði sé verið „murka“ lífið úr sjóðfélögum í formi verðtryggingar, okurvaxta og skerðingar á allri samkeppninni sem birtist í því að við erum eitt dýrasta land í heimi.

Munum að lífeyrissjóðirnir hafa eitt hlutverk og það er að ná sem bestri ávöxtun en skoðum ögn betur hvernig lífeyriskerfið er uppbyggt og hvar sjóðirnir ná í sína ávöxtun.

Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 7.722 ma.kr. í lok júní sl. samkvæmt nýlegum tölum frá Seðlabankanum. Rétt er hins vegar að geta þess að þrír fjórðu hlutar eignavaxtar lífeyrissjóðanna voru í erlendu eignasafni þeirra. Slíkar eignir námu 3.062 ma.kr. í júnílok.

Þetta þýðir að 4.660 milljarðar af eignum lífeyrissjóðskerfisins eru inni í íslensku hagkerfi en rétt er að geta þess að raunávöxtunarviðmið lífeyrissjóðskerfisins er 3,5%. Innlenda eignasafnið skilar lífeyrissjóðskerfinu 457 milljörðum í ávöxtun ef þeim tekst að að uppfylla 3,5% raunávöxtunarviðmið sjóðanna.

En hvaðan koma þessir 457 milljarðar sem innlenda eignasafn sjóðanna kveður á um? En ekki hvað frá almenningi, heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Munum að lífeyrissjóðirnir eiga yfir 50% í öllum skráðum félögum í kauphöllinni sem þýðir að þeir eru ráðandi á matvælamarkaði, flutningsmarkaði, tryggingamarkaði, eldsneytismarkaði, í flugsamgöngum og svona má lengi telja.

Fáum erlenda óháða aðila til að rannsaka…

Ætlar einhver að halda því fram að það sé til hagsbóta fyrir neytendur og að það sé „eðlileg“ samkeppni að lífeyrissjóðirnir séu samanlagt með yfir 50% eignarhlut í fyrirtækjum sem selja vörur og þjónustu? Munum að lífeyrissjóðirnir öskra á meiri arðsemi í dag en þeir fengu í gær og það hlýtur að kalla á hærra verð til neytenda á öllum sviðum samfélagsins.

Mér sýnist að útflutningsverðmæti allra sjávarafurða hafi numið 353 milljörðum árið 2023 en það þarf 457 milljarða ávöxtun til að uppfylla 3,5% raunávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna eða sem nemur 104 milljörðum meira en öll sjávarauðlindin skilar okkur í útflutningsverðmæti.

Þetta er galið og sést að það gengur ekki upp að vera með 4.660 milljarða inni í íslensku hagkerfi sem öskra á ávöxtun og munið það eru neytendur sem þurfa að standa undir þeirri ávöxtun í formi hærri vöru og þjónustuverðs.

Rétt er að minna á að norski olíusjóðurinn fjárfestir að langstærstum hluta erlendis en um 95% af eigum norska olíusjóðsins bera erlenda ávöxtun.

Það er í það minnsta alls ekki til hagsbóta fyrir neytendur og heimili að lífeyrissjóðirnir séu að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru að selja vöru og þjónustu enda bitnar slík fjárfesting eingöngu á neytendum.

Það er ekkert að því að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum eins og t.d. í sjávarútvegi þar sem ekki þarf að varpa verðlagningu á neytendur til að ná góðri ávöxtun.

Eitt er víst, það þarf að rótargreina hvað veldur því að Ísland er eitt dýrasta land í heimi og að við þurfum að búa við verðtryggingu og þrefalt hærri vaxtakjör en flest þau velferðarlönd sem við viljum bera okkur saman við.

Fáum erlenda óháða aðila til að rannsaka orsök þess að þetta er svona hjá okkur. Kannski er það gjaldmiðilinn okkar, kannski lífeyriskerfið okkar eða kannski eru það bæði krónan og lífeyriskerfið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: