- Advertisement -

Hvað er sérstakt við bankastjórastarf?

Bankastjóri má ekki vera haldinn sterkri þrá eftir að auðgast.


Ragnar Önundarson skrifar:

Bankar hafa milligöngu á lánamarkaði. Peningar eru hvorki „vara“ né „þjónusta“. Eftirspurn eftir vörum og þjónustu er unnt að uppfylla og þá verður jafnvægi framboðs og eftirspurnar við tiltekið verð. Peningar eru ávísun á verðmæti, hvaða verðmæti og efnisleg gæði sem er. Mannfólkið er þannig að eðlisfari að það vill alltaf hámarka getu sína og sinna til að afla sér viðurværis, öryggis og lífsgæða. Þess vegna er ekki mögulegt að uppfylla þarfir fyrir peninga.

Reynslan sýnir að mikið vill meira og að þangað safnast fé sem fé er fyrir. Þetta gerir stjórnun banka öðru vísi en venjulegs fyrirtækis. Ein er sú „tegund“ af peningum sem mest eftirspurn er eftir: Peningar annarra, oftast nefndir lánsfé. Eftirspurn eftir þeim verður að hemja með því að krefjast fullgildra trygginga í auðseljanlegri eign, en jafnframt þarf alltaf að „skammta“ þá, bankinn þarf að skoða fyrirætlanir umsækjanda og meta hvort líklegt sé að lánsféð fáist endurgreitt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Augljóst er, um leið og bent er á það, að bankastjóri má ekki vera haldinn sterkri þrá eftir að auðgast. Hann þarf að stilla sig um að taka fé sparifjáreigenda traustataki, til eigin nota. Þess vegna þarf að liggja fyrir á hvaða hóflegu kjörum honum býðst að starfa, þannig að þeir sem haldnir eru þessari sterku þrá leiti í önnur störf. Þannig var þetta allt fram að einkavæðingu ríkisbankanna, bankastjórar höfðu laun ákveðin af Kjaradómi sem ófrávíkjanlega viðmiðun.

Fákeppni skiptir líka máli

Öll stærstu fyrirtæki landsins eru fákeppnisfélög. Allir æðstu stjórnendur fákeppnisfélaga vita að verðsamkeppni er skaðleg eigendunum. Keppt er um stóra viðskiptavini, gæði og þjónustu, allt nema verð. Það væri heimskulegt. Fákeppni í bankarekstri er háð sömu lögmálum. Hagnaður er tekinn af viðskiptavinunum og greiddur er árviss arður. Þetta er ein ástæða þess að ríkið á að vera kjölfestufjárfestir í öllum bönkum sem taka við innlánum. Ríkið þarf hvort sem er að hlaupa undir bagga, ef óhöpp verða. Það situr alltaf uppi með áhættuna. Ríkið á líka að hlutast til um að hagnaðartaka banka sé hófleg. Auðvelt er að taka mikla ávöxtun af fjöldanum án þess að mikið beri á. Fólk er berskjaldað, getur ekki leitað neitt annað en til hinna fákeppnisbankanna.

Niðurstaða

Það skiptir miklu máli hvernig eignarhaldi og stjórnun banka er háttað.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: