Hvað er með þessa Útlendingastofnun?
Útlendingastofnun gefur ekki út ársskýrslur, sem henni ber að gera lögum samkvæmt. Forráðafólk stofnunarinnar segir fólk þar ekki hafa tíma til slíks.
En það er alls ekki allt. Í Fréttablaðinu í dag má lesa að aðeins 43 prósent ákvarðana Útlendingastofnunar, um brottvísanir og endurkomubönn einstaklinga, sem synjað var um alþjóðlega vernd hér á landi, voru staðfest af kærunefnd útlendingamála í fyrra.
„Ég held að það sé óhætt að fullyrða að hlutfallið sé frekar hátt,“ sagði Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður nefndarinnar, aðspurður, af blaðamanni Fréttablaðsins, um samanburð við kærunefndir í stjórnsýslunni almennt.
Í lok maí birti Miðjan frétt þar sem sagði: „Útlendingastofnun gaf síðast út ársskýrslu fyrir árið 2014. Forsvarsfólk stofnunarinnar segjast ekki hafa tíma til skýrslugerðar. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen til Helga Hrafns Gunnarssonar.“
„Útlendingastofnun hefur ekki gefið út ársskýrslur frá árinu 2014 vegna mikilla anna sem stöfuðu af fordæmalausri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd. Ársskýrslur vegna áranna 2015, 2016 og 2017 eru hins vegar í vinnslu. Ársskýrsla vegna 2017 liggur nú fyrir í drögum og mun koma út innan skamms. Þær tvær sem eftir eru munu síðan fylgja í kjölfarið. Útlendingastofnun hefur lagt áherslu á að bæta mjög tölfræðilegar upplýsingar vegna umsókna um alþjóðlega vernd á heimasíðu sinni. Þar er aðgengileg tölfræði sem verður einnig að finna í ársskýrslunum. Sú tölfræði sem mun bætast við er meðal annars varðandi dvalarleyfi en þeim hefur fjölgað mjög undanfarin ár,“ segir í svarinu.
„Ég held að það sé óhætt að fullyrða að hlutfallið sé frekar hátt.“