Er Mogginn að missa sig? Er verið að slíta naflastrenginn? Sem alkunna er er Mogginn háður ótrúlega mikilli peningagjöf eigenda sinna. Þeir hafa verið ósparir á peninga til útgáfunnar. Þegar Mogginn var endurreistur eftir hrun var tekið fram að markmið nýrra eigenda væri að verja kvótakerfið, gæta þess að Ísland færi ekki í Evrópusambandið og að berjast gegn breytingum á stjórnarskrá. Nýju og ríki eigendurnir ætluðu sér að gæta að þessu og Mogginn er þeirra baráttutæki.
Í Staksteinum dagsins segir:
„Verra er með suma einkarekna fjölmiðla á Vesturlöndum sem auðmenn eða áróðursmenn ná að nota til æsinga, óhróðurs, spillingar eða skemmdarverka.“ Smellpassar við Moggann.
Hefur ritstjórnin loks risið upp gegn hinum ríku eigendum sínum? Hvað verður þá um markmiðin þrjú; kvótann, ESB og stjórnarskrána? Á að slaka á klónni?
Nei, því miður ekki. Staksteinar nýta sér skrif „Frjáls lands“ þar sem fjallar er um BBC og nýjan útvarpsstjóra þar á bæ. Óspennandi skrif. En ritstjóri Moggans ætlaði að nýta sér þau til að koma enn einu högginu á Ríkisútvarpið. En hittir sjálfan sig illilega fyrir. Um Ríkisútvarpið segir í Staksteinum: „Skipt hefur verið um stjóra á „RÚV“ oftar en einu sinni, en aldrei kemur nýr.“