Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar:
Í gær birti ég færslu hér á Facebook þar sem ég hrakti málflutning Bjarna Benediktssonar um að ástandið á Landspítala komi peningum ekki við.
En ímyndum okkur að fjármálaráðherra hafi rétt fyrir sér. Að vandi Landspítalans – sem er samofinn vanda heilbrigðiskerfisins í heild – hafi raunverulega ekkert með peninga að gera og verði ekki leystur með því að veita auknu fé til heilbrigðismála. Hvað er Bjarni þá í raun og veru að segja eftir tíu ára setu í ríkisstjórn?
Þá er ráðherra að viðurkenna mjög alvarlegan stjórnunar- og skipulagsvanda. Viðurkenna að síðustu ríkisstjórnir hafi brugðist í að tryggja skilvirka nýtingu fjármuna til að byggja upp heilbrigðiskerfi sem virkar.
Ef fjármálaráðherra hefur rétt fyrir sér vakna alvarlegar spurningar um embættisverk þeirra stjórnmálamanna sem farið hafa með yfirstjórn heilbrigðismála síðastliðinn áratug.
En þá vakna líka spurningar um ábyrgð fjármálaráðherra sjálfs sem á að tryggja skilvirka og hagkvæma opinbera fjárstjórn samkvæmt lögum um opinber fjármál.
Samkvæmt 65. gr. laga um opinber fjármál skal framkvæmd innri endurskoðun hjá ríkisaðilum til að tryggja að takmarkaðir fjármunir nýtist með eins hagkvæmum hætti og unnt er.
Þetta er brýnast þegar kemur að rekstri stórra stofnana. Landspítalinn t.d. kostar um 90 milljarða á ári og er stærsti vinnustaður landsins, með 6 þúsund manns í vinnu.
Það er með nokkrum ólíkindum að nú þegar meira en sjö ár eru liðin frá gildistöku laga um opinber fjármál hefur enn ekki verið komið á innri endurskoðun hjá Landspítalanum og öðrum stofnunum heilbrigðiskerfisins. Þetta er staðan þrátt fyrir stöðugt tal ráðherra um að skipulagningu og fjárstýringu sé ábótavant.
Hvernig stendur á því að slíkri innri endurskoðun hefur ekki verið komið á? Hver stendur í vegi fyrir því? Það er fjármálaráðherra sjálfur. Hann hefur enn ekki sett reglugerðina sem er forsenda þess að innri endurskoðun geti farið fram hjá stærri ríkisaðilum samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum, reglugerð sem hann á að setja samkvæmt lögum. Talandi um að fara vel með ríkisfé!
Hér á myndinni má sjá fyrirspurn sem ég lagði fyrir fjármálaráðherra fyrir mörgum mánuðum og hef enn engin svör fengið við. Þótt þingskapalög kveði á um að svarað skuli að jafnaði innan 15 daga.
En líklega gegna fáar stofnanir mikilvægara hlutverki þegar kemur að því að tryggja hagkvæma nýtingu fjármuna í okkar blandaða heilbrigðiskerfi heldur en Sjúkratryggingar Íslands. Nú er sú stofnun t.d. að fylgja eftir innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar á Landspítalanum, lykilaðgerð til að auka hagkvæmni.
Og hver er staðan hjá Sjúkratryggingum? Jú, forstjóri stofnunarinnar, María Heimisdóttir, var einmitt að segja af sér með vísan til þess að stofnunin sé of vanfjármögnuð til að geta sinnt almennilega þeim verkefnum sem henni eru falin.
Þetta segir kannski meira en mörg orð um metnað ríkisstjórnarinnar til að tryggja skilvirka fjárstjórn í heilbrigðiskerfinu.