- Advertisement -

Hvað breyttist Þórdís Kolbrún?

Var það kannski bara það að velsæmismörkin hurfu, að græðgin óx, að virðing auðmanna fyrir samfélaginu hvarf?

Smári McCarty skrifar:

„Við höfum einfaldlega ekki efni á því að reka stóru kerfin okkar með óbreyttum hætti og það er eitthvað sem var orðið ljóst fyrir Covid.“ – þessari fullyrðingu henti varaformaður Sjálfstæðisflokksins fram í gærkvöldi án rökstuðnings, án skýringa, og án nokkurs annars en kreddufestu.

Athugum að þegar hún talar um „stóru kerfin okkar“ hlýtur hún að eiga við heilbrigðisþjónustu, menntakerfið, stuðning við aldraða og öryrkja og samgönguinnviði, enda eru þetta stóru kerfin okkar. Þegar hún segir „óbreyttum hætti“ meinar hún rekstur á samfélagslegum grundvelli – að ríkið tryggi tilvist og gæði þjónustunnar og innviðanna, svo allir njóti góðs af án tillits til persónulegra aðstæðna. Og þegar hún heldur þessu fram, þá er það ekki tilviljun að þetta endurómar pólitíska hugmyndafræði sem segir að samfélagið sé ekki til, að einkaframtakið sé eina rétta leiðin, og heldur úti hagfræðisstefnu sem hefur verið beinlínis afsönnuð.

Áður en nokkur samþykkir þessa línu ráðherrans er mikilvægt að spyrja á móti: hvers vegna?

Hvers vegna getum við ekki rekið samfélagslegar hitaveitur í dag, ef við gátum það fyrir 40 árum? Hvað breyttist?

Hvers vegna getum við ekki byggt brýr og þjóðvegi án einkavæðingar og vegtolla núna, ef við gátum það fyrir 40 árum? Hvað breyttist?

Hvers vegna getum við ekki rekið heilbrigðisþjónustu fyrir alla án niðurskurðar, lélegra launa, og úthýsingar verkefna til einkafyrirtækja núna, ef við gátum það fyrir 40 árum? Hvað breyttist?

Hvað breyttist, Þórdís Kolbrún? Var það kannski bara það að velsæmismörkin hurfu, að græðgin óx, að virðing auðmanna fyrir samfélaginu hvarf? Eða var það líka það að almenningur leyfði ykkur Thatcheríska auðvaldsliðið með ykkar hamfarahagfræði að plata sig til að hætta að gera kröfu um að samfélagið væri gott?

Ég held nefnilega að forsendurnar hafi ekki breyst. Samfélög eru ennþá helvíti mögnuð fyrirbæri. Við getum rekið stóru kerfin okkar betur en nokkru sinni fyrr. En við þurfum fyrst að losna við fólkið sem heldur aftur af okkur úr valdastöðum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: