„Hvað ætlið þið að gera í því?“
Helga Vala segir að verið sé að brjóta mannréttindi á fólki sem er í neyð.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, flutti kröftuga ræðu á Alþingi fyrir augnabliki.
Hún sagði: „Í síðustu viku var ungur ríkisfangslaus Hasari fluttur burt frá Íslandi. Hann tilheyrir hinum réttlausu íbúum Íran sem ekki fá notið skólagöngu, atvinnuþátttöku, velferðar eða annarra réttinda. Í slíku ástandi er þessi ungi maður fæddur, uppalinn, án allra réttinda. Þessi ungi maður sem ekki hefur náð tvítugsaldri kom hingað í leit að vernd fyrir rúmu ári síðan. Honum var synjað um efnismeðferð en þegar brottvísun hafði ekki farið fram innan tólf mánaða frá komu var óskað eftir því með vísan í útlendingalög að efnismeðferð færi fram. Slíkt er skýlaus réttur þessa unga manns samkvæmt íslenskum lögum.
Sú beiðni var enn óafgreidd þegar íslensk stjórnvöld framkvæmdu skyndilega brottvísun í skjóli nætur þrátt fyrir hörð mótmæli löglærðs talsmanns og vina. Íslensk stjórnvöld viðhéldu þannig algeru réttleysi þessa einstaklings þvert á íslensk lagaboð. Tólf mánaða reglan er þessi réttur sem á að tryggja mannréttindi en íslensk stjórnvöld, enn einu sinni, með hæstvirtan dómsmálaráðherra í broddi fylkingar, brutu þarna íslensk lög.
Kæru háttvirtu þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Willum Þór Þórsson. Þetta, ásamt nýrri reglugerð dómsmálaráðherra í útlendingamálum, er að gerast á ykkar vakt hjá ykkar ríkisstjórn. Það er verið að brjóta á mannréttindum fólks sem er í neyð, sem óskar hér eftir vernd. Hvað ætlið þið að gera í því?“