Leiðari / Stundum ber að hlusta á það sem Davíð Oddsson segir eða skrifar. Skárra væri það nú. Enginn hefur setið lengur sem forsætisráðherra. Talað er af þekkingu þegar hann tjáir sig um það sem gerist bak við tjöldin.
Þegar Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mynduðu sína ríkisstjórn háttaði þannig til að enginn ráðherra í ríkisstjórninni hafði áður gegnt ráðherraembætti. Ekki einn einasti
Þá skrifaði Davíð að flestir ráðherrar verði fljótt húsvanir. Það er að embættismenn ráðuneytanna nái fljótt tökum á hinum nýjum ráðherrum. Eflaust er þetta rétt. Um það eru mýmörg dæmi.
En af hverju að tala um þetta núna? Jú, vegna þess að Davíð kemur inn á þetta í Staksteinum, svona beint á ská. Hann er að fjalla um andstöðu Sigríðar Á. Andersen um skráningu hagsmuna í stjórnarráði Íslands.
„Hún benti á að ef ætlunin væri að auka gagnsæi og auka traust borgaranna á stjórnsýslunni ætti ekki að undanskilja upplýsingar um „hagsmunaárekstra skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra, og jafnvel upplýsingar um þá starfsmenn á plani, ef ég má orða það þannig, sem taka raunverulega ákvarðanirnar. Sem að kveða upp úrskurðina.“
Þarna upplýsist, kannski enn og aftur, að húsvanir ráðherrar, ráða nánast engu. Ekki öðru en því sem starfsmenn á plani ráðuneytanna leyfa þeim.
Og hvað segir reynsluboltinn um þetta, er þetta virkilega rétt:
„Þetta er hárrétt ábending. Tilhneigingin hefur verið sú að færa æ meiri völd í hendur ókjörinna og nafnlausra embættismanna og nefnda með þeim rökum að það sé faglegt. Ef völdin eiga að vera þar, sem er hvorki lýðræðislegt né æskilegt að öðru leyti, er auðvitað nauðsynlegt að hulunni sé svipt af embættismönnunum og að þeir lúti sömu reglum og eftirliti og til dæmis ráðherrar.“