- Advertisement -

Húsnæðisvandinn: Sofandi stjórnmálamenn

- Henný Hinz, aðalhagfræðingur Alþýðusambandsins, talar um húsnæðisvandann og segir 80 milljörðum hafi verið deilt út til húsnæðiseigenda.

 

Henný Hinz:
Vandinn sem nú blasir við var fyrirséður.“

„Stjórnmálamenn hafa sofið á verðinum um þessi mál í of langan tíma og látið hópinn í mestum vanda sitja eftir. Á sama tíma og 80 milljörðum af almannafé var deilt út til húsnæðiseigenda, sem fór að stórum hluta til tekjuhæsta hluta þjóðarinnar, voru engin áform um að bæta stöðu verst stadda hópsins,“ segir Henný Hinz, meðal annars í viðtali við Vinnuna, blað ASÍ.

„Ef ekki hefði komið til mikils þrýstings frá ASÍ efast ég um að neitt hefði þokast í þessum málum. En ég geri mér vonir um að nú þegar málið er komið af stað og með þeirri miklu umræðu sem er um erfiða stöðu á húsnæðismarkaði sjái stjórnmálamenn mikilvægi þess að koma að þessu verkefni með myndarskap og leggja fram það nauðsynlega fé sem þarf til að fjölga enn frekar hagkvæmum íbúðum með viðráðanlegri húsaleigu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Henný er spurð hvers vegna rík þjóð, sem telur aðeins 335 þúsund sálir, sé komin á þann stað að fjöldi fólks á litla möguleika á að komast inn á íbúðamarkaðinn, hvort sem er til að leigja eða kaupa?

„Ég tel eina meginorsökina vera að ríki og sveitarfélög hafa ekki tekið hlutverk sitt í húsnæðismálum alvarlega,“ segir Henný. „Húsnæðismál eru í eðli sínu grundvallar velferðarmál hverrar fjölskyldu en á sama tíma mikilvægt efnahagsmál því óstöðugleiki og sveiflur á húsnæðismarkaði hafa gríðarleg áhrif á efnahagslífið og fjárhag heimila. Vandinn sem nú blasir við var fyrirséður. Það hefur lengi legið fyrir að stórir árgangar kæmu inn á húsnæðismarkaðinn á þessum tíma en hins vegar hefur ekki legið fyrir nein heildarsýn á húsnæðismarkaðinn þar sem þörf ólíkra hópa er metin til framtíðar og stillt saman m.a. við skipulag og byggingaráform á einstökum svæðum. Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var mjög lítið byggt af íbúðarhúsnæði og mun minna en þörf var á til að mæta árlegri þörf fyrir nýtt húsnæði og þrátt fyrir talsverða aukningu í íbúðabyggingum sl. tvö ár dugar það langt í frá til að mæta þörfinni, hvað þá að vinna á uppsafnaðri þörf undanfarinna ára. Við þetta hefur svo bæst ferðamannasprengja sem veldur því að mikið af húsnæði sem áður nýttist til búsetu er nú leigt út til ferðamanna. Vandinn við að horfa ekki fram í tímann í húsnæðismálum er að þegar í óefni er komið eru engar skyndilausnir til sem raunverulega leysa vandann.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: