Uppbygging miðbæjarins í Reykjavík er á leið í fangið á bönkunum.
Gunnar Smári skrifar:
Sorglegt að sjá. Í mestu húsnæðiskreppu Reykjavíkur frá seinna stríði hrannast upp dýrar íbúðir sem enginn vill eða hefur ráð á að kaupa. Fasteignaverð er hætt að hækka en leiguverð lækkar ekki, er enn að hækka vegna skorts á húsnæði. Á sama tíma og auðar íbúðir hrannast upp. Ef borgarstjórinn og borgarfulltrúar meirihlutans sofa á nóttinni í þessu ástandi er þetta samviskulaust fólk. Þarna kemur fram að enn eru 40% íbúðanna í Bríetartúni óseldar þrátt fyrir að þær hafi komið í sölu fyrir rúmu ári síðan. Þá seldust strax 45% íbúðanna, að mestu til stórkaupenda sem voru að veðja á áframhaldandi hækkun fasteignaverðs, einhvers spilavítiskapítalista sem lagði undir á rautt. Það má því ætla að aðeins um 20% af 94 íbúðum við Bríetartún hafi selst til almennings, fólks sem var að kaupa íbúð fyrir sig sjálft en ekki til að leigja túristum eða til að geta geymt og selt síðar meir á hærra verði.
Ef það hefur tekið verktakann í Bríetartúni eitt ár að selja tæplega 20 íbúðir getur fólk rétt ímyndað sér hversu langan tíma það mun taka fyrir aðra verktaka að selja þessar 300 íbúðir í miðbænum, íbúðir sem ekki voru byggðar til að mæta húsnæðiskreppu fólks í bráðavanda, heldur fyrir ímyndaða kaupendur; sterkefnað barnlaust fólk sem vill búa í blokk; ímyndaða þjóð sem verktakar og stjórnmálamálafólkið, sem hefur það eitt markmið að búa til skemmtilega borg, hafa í sameiningu skáldað upp.
Uppbygging miðbæjarins í Reykjavík er á leið í fangið á bönkunum, gróðasókn verktakanna er dæmd til að enda í gjaldþroti. Gott á þá, gæti fólk sagt. En á meðan verktakarnir í leit að ógnargróða fengu að taka yfir húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar hafa 12-15 þúsund fjölskyldur kramist á milli láglaunastefnu fyrirtækja og okurleigu leigufélaganna, verið þrýst niður í fátækt og bjargarleysi. Síðustu níu ár í sögu Reykjavíkur eru mikil skömm borgaryfirvalda; bera með sér ábyrgðarleysi gagnvart grunnskyldu sveitarstjórna um að tryggja íbúunum öruggt húsnæði og fádæma heimskulegri tiltrú á að verktakar, sem eru eitt grimmasta formið á grimmum kapítalismanum, einskonar gullgrafarar, gætu leyst húsnæðisvandann (þ.e. ef meirihlutinn í borginni hafði yfir höfuð nokkurn áhuga á húsnæðisvanda fólks; margt bendir til að borgarstjóri og borgarfulltrúar meirihlutans hafi fyrst og fremst haft áhuga á einskonar legó-leik, að byggja ímyndaða borg fyrir ímyndað fólk; að það hafi aldrei leitt hugann að vanda raunverulegs fólks af holdi og blóði).
Við íbúar Reykjavíkur stöndum frammi fyrir stór undarlegri stöðu. Við horfum fram á hrun byggingariðnaðarins og upptöku banka á hundruðum íbúða í byggingu og tilbúnum til sölu. En undir þessu er síðan óleystur vandi síðasta hruns, 12-15 þúsund fjölskyldur í húsnæðiskreppu. Við erum því með kreppu og bólu á sömu stund. Bólan sem myndaðist var nefnilega ótengd kreppunni, alls ekki ýkt viðbrögð við henni eins og oftast er um bólur. Kreppan tilheyrði raunhagkerfinu, dró niður lífskjör venjulegs fólks. Bólunni var hins vegar ekki ætlað að leysa vanda þessa fólks, bólan var blásin upp í fjármálavæddum skálduðum heimi elítustjórnmála og fjárglæfrakapítalista, að stóru leyti persónum úr stóru bólu og síðasta Hruni. Húsnæðis-þversögnin í Reykjavík er því ágætt dæmi um kapítalisminn er hættur að þjóna samfélaginu, er algjörlega ótengdur því og vellur áfram í sinni eigin, aðgreindu veröld. Og sönnun þess að stjórnmálin tilheyra þeirri veröld, alls ekki þeim heimi sem við reynum að lifa af innan.
Húsnæðisstefna Reykjavíkur er hrunin. Og með henni verktakavæðing íbúðakerfisins, fjármála- og markaðsvæðing þess. Leiðin út úr ógöngunum er að borgin stofni sjálft byggingafélag og fari að byggja húsnæði fyrir fólk í vanda og hætti ekki fyrr en allir eru komnir undir þak. Þegar horft er yfir sögu síðustu tvö hundruð ára í okkar heimshluta er augljóst að þetta er eina raunhæfa leiðin til að mæta húsnæðiskreppu. Hinn svokallaði markaður hefur aldrei leyst húsnæðiskreppur, það hefur aðeins gerst með inngripi stjórnvalda. Hinn svokallaði markður er tæki fyrir kapítalista til að græða, ekki tæki til að tryggja fólki húsnæði.
Það þarf að svæla lóðabraskara, verktaka, leigufélög og aðra gullgrafara út af íbúðamarkaðnum. Íbúð er grunnþörf eins og heilbrigðiskerfi og menntakerfi, eins og vegir, orkudreifing og peningaveita bankanna. Það á ekki að hleypa góðafyritækjum inn í þessi grunnkerfi heldur reka þau á félagslegum grunni. Þessi kerfi ganga út á að byggja upp gott samfélag sem getur orðið góður grunnur undir líf og starf íbúanna. Að sleppa gróðapungum lausum á almenning, svo þeir geti hagnast stórlega á grunnþörfum fólks, er glæpur, brot gegn almenningi; dæmi um það þegar stjórnmálafólk fórnar hagsmunum hinna mörgu fyrir hagsmuni hina fáu.
Ég ræddi við fasteignasala í vikunni. Hann sagðist ekki hissa á ekkert seldist af þessum íbúðum niður í bæ. Verktakarnir hefðu keypt lóðir af einhverjum bröskurum á 350 þús. kr. fermetrann af byggðu húsnæði. Það kostaði svo um 300 þús. kr. að byggja og síðan leggðu verktakarnir 100 þús. kr. á hvern fermetra. Ef við ímyndum okkur 100 fermetra íbúð borgar kaupandinn 75 m.kr. fyrir hana. Útborgunin er 15 m.kr. (20%) en svo borgar fjölskyldan 236.187 kr. á mánuði í 40 ár til að fóðra lán fyrir eftirstöðvunum miðað við lægstu vexti, eða rúmar 113 m.kr. í allt. Af þessari upphæð fara 53 m.kr. í þann sem lánar, 35 m.kr. í uppsafnaðan hagnað lóðabraskara sem keyptu og seldu lóðina, 10 m.kr. í hagnað til byggingarverktakans og 15 m.kr. í að borga fyrir íbúðina sem fólkið býr í.
Fólkið sem lagði til 15 m.kr. til að fá að búa í íbúðinni greiði því um hver mánaðamót 111 þús. kr. í vexti, 73 þús. kr. í skatt til lóðabraskara og 21 þús. kr. í skatt til verktaka, en aðeins 31 þús. kr. fyrir íbúðina sjálfa. Ef þetta saklausa fólk þyrfti ekki að bera byrðarnar af alræði auðvaldsins, af afleiðingum þess að auðvaldið hefur fengið að leggja undir sig samfélagið og blóðmjólka almennings eins og búfénað, gæti það búið í íbúðinni fyrir 31 þús. kr. á mánuði – losnað undan því að borga fjárglæfra-auðvaldinu 205 þús. kr. á mánuði alla mánuði ársins í heila starfsævi. Það er markmið sósíalista að bjarga fólki frá þessari áþján, kúgun og ofbeldi.
Ef þið teljið of djarft að fella niður vexti þá þyrfti fólkið í 100 fermetra íbúðinni að borga 31 þús. kr. á mánuði fyrir íbúðina á mánuði og svo 28 þús. kr. í vexti fyrir að fleyta byggingarkostnaðinum fram um 40 ár; samtals 59 þús. kr. á mánuði. Í dag leggst ofan á þetta 177 þús. kr. auðvalds-skattur um hver mánaðamót, alla mánuði ársins í heil 40 ár; samtals 85 m.kr. sem lóðabraskarar og verktakar hafa af einn fjölskyldu. Þið getið margfaldað þetta með 150 þúsund fjölskyldum á landinu (sirka 13 þúsund milljarðar, gjald almennings af auðvaldskerfinu aðeins innan húsnæðiskerfisins, 320 milljarðar á hverju ári).
Húsnæðisstefna sem byggir á hagsmunum slíkra hrægamma og fórnar til þess öllum almenningi er ekkert annað en glæpur; stjórnvöld hafa gengið í lið með þjófahyski og ræningjum og leyft þeim rýja almenning inn að skinni. Svona stjórnkerfi heitir oligarchy í útlöndum eða þjófræði upp á íslensku, þjóðskipulag þar sem þjófarnir hafa tekið völdin. Andsvarið við því heitir sósíalismi, þjóðskipulag þar sem hagsmunir og þarfir almennings stjórna uppbyggingu samfélagsins.
Til að brjóta niður þjófræðið í húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar þarf að úthluta lóðum án endurgjalds til almennings, eins og gert var fyrir fáeinum áratugum. Það er nauðsynlegt til að stöðva lóðabraskið sem skilar ekki aðeins örfáum ógnargróða heldur leggur margfalt meiri byrðar á íbúðakaupendur og -leigjendur ævina á enda. Borgin þarf sjálf að stíga inn og stofna Byggingafélag Reykjavíkur og hefja skipulagða byggingu íbúða fyrir fólkið sem er í mestum húsnæðisvanda, helst að byggja þessar íbúðir á bestu útsýnislóðunum til að sýna fram á að sú tíð er liðin að hin ríku geti keypt sér almannagæði á borð við útsýnið út á Sundin. Þessar íbúðir þarf að setja í lokað kerfi með kvöðum um að ekki sé hægt að selja þær á opnum markaði heldur aðeins fyrir stofnkostnað inn í kerfið aftur. Á sama tíma á borgin að greiða fyrir íbúðabyggingum á vegum verkalýðshreyfingar, Öryrkjabandalagsins, Félagsstofnun stúdenta, Kvennaathvarfs, Félags einstæðra foreldra, Búseta og annar almannasamtaka sem vilja byggja félagslegt húsnæði og verja sitt fólk fyrir hrægömmunum á hinum opna markaði. En það er ekki hlutverk þessara samtaka að tryggja íbúum Reykjavíkurborgar húsnæði; það er fyrst og síðast hlutverk sveitarfélagsins Reykjavíkur.
O.s.frv. Við þurfum að móta húsnæðisstefnu á grunni á rústum húsnæðisstefnu nýfrjálshyggjuflokkanna sem hafa mótað húsnæðisstefnu borgarinnar á undanförnum áratugum; fyrst R-listans, svo Sjálfstæðisflokks og Framsóknar en á síðari árum af Samfylkingu, Besta flokki, Bjartri framtíð, VG, Pírötum og Viðreisn. Staðan í húsnæðismálum í Reykjavík afhjúpar hvaða hagsmunum þessir flokkar þjóna, hagsmunum þjófanna. Ástandið í húsnæðismálum Reykjavíkur sýnir að þessir flokkar eru stjórnmálaarmur þjófanna.