- Advertisement -

Húsnæðiðsverðið rífur upp verðbólguna

Ólafur Margeirsson skrifaði þessa fínu grein:

Húsnæði er um fimmtungur verðbólgumælingarinnar á Íslandi, þ.e. vægi þess í vísitölu neysluverðs, innfluttar vörur tæplega þriðjungur. En verðlag á húsnæði og tengdum atriðum (fasteignaverð, leiguverð, rekstrarkostnaður fasteigna, osfrv.) hefur hækkað um rúm 120% síðustu 10 ár á meðan verðlag á innfluttum vörum hefur hækkað um 11%.

Handarbaksútreikningur segir okkur að framlag húsnæðisliðarins síðasta áratuginn sé um 8-sinnum mikilvægara en framlag innfluttra vara þegar kemur að hækkun á almennu verðlagi: húsnæðisliðurinn einn og sér hefur ýtt verðlagi upp um ca. 28% síðustu 10 ár á meðan innfluttar vörur hafa ýtt almennu verðlagi upp um ca. 4%. Þetta er raunin þrátt fyrir að vægi innfluttra vara sé hærra en húsnæðis í neysluverðsvísitölunni. Ástæðan er að húsnæðisverð og aðrir tengdir þættir hafa hækkað svo mikið.

Húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs hefur, með öðrum orðum, einn og sér séð til þess að verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5% á ári) hefur ekki verið náð.

Verðbólguvandamálið er ekki gjaldmiðillinn eins og sumir virðast halda, það er kerfislegur skortur á húsnæði. Við erum ekki að byggja nóg til þess að mæta þörfum hagkerfisins – fólksins – á húsnæði. Afleiðingin er að húsnæðisverð hækkar. Og augljóslega hækka launakröfur verkalýðsfélaga þegar fasteigna- og leiguverð hækkar.

Byggjum meira, út um allt land, og verðbólga fellur nær sjálfkrafa.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.