Fréttir

Húsaleiga hefur hækkað um nærri tíu prósent á einu ári

By Ritstjórn

January 09, 2019

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistflokksins skrifar:

„Tvær tillögur Sósíalistaflokksins að breytingum við útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings, voru til umræðu á velferðarráðsfundi í dag. Báðum tillögunum var vísað til frekari meðferðar velferðarsviðsins og ég tel það jákvætt skref, að velferðarráð sé til í að skoða þetta nánar.

Fyrri tillagan snýr að því að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs en á síðastliðnum árum og mánuðum hefur leiguverð tekið miklum hækkunum. Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands frá því í lok nóvember 2018, hækkaði vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,4% frá fyrri mánuði, 3,6% síðastliðna þrjá mánuði og um 9,6%, sé litið 12 mánuði aftur í tímann. Tillagan byggir á því að upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings uppfærist mánaðarlega í samræmi við vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt Þjóðskrá.

Einhverjum gæti mögulega þótt þessi tillaga róttækari en að upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings hækki mánaðarlega í takt við vísitölu neysluverðs en tillagan er hugsuð sem svo að upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings endurspegli þannig þær almennu hækkanir sem hafa átt sér stað á leiguverði íbúða. Þannig séu leigjendur í erfiðri fjárhagslegri stöðu ekki látnir einir standa undir hækkun leiguverðs. Margir greiða nú sífellt hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og því er mikilvægt að sérstakur húsnæðisstuðninur taki mið af hækkun vísitölu leiguverðs. Sérstakur húsæðisstuðningur er fjárstuðningur sem er ætlað til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur og er því ætlað að koma til móts við þá einstaklinga eða fjölskyldur sem eru ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði vegna lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna.

Síðari tillagan snýr að breytingum við útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings, þar sem lagt er til að reglum Reykjavíkurborgar um þann stuðning verði breytt þannig að stuðningurinn byrji ekki að skerðast nema þegar húsnæðiskostnaður er undir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Þá er einnig lagt til að þær breytingar hafi ekki neikvæð áhrif á þá sem mögulega greiða nú þegar undir 25% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað.

Samkvæmt núverandi reglum Reykjavíkurborgar skerðist sérstakur húsnæðisstuðningur við ákveðin tekjumörk. Sem dæmi má nefna að fyrir einstakling, tekur sérstakur húsnæðisstuðningur að skerðast þegar tekjur eru hærri en 301.883 krónur á mánuði og fellur niður við efri tejumörk sem eru 377.354 kr. á mánuði en skerðist hlutfallslega upp að því marki. Þegar að heimilsmenn eru tveir á heimili, þá fellur sérstakur húsnæðisstuðningur niður um leið og tekjur eru hærri en 499.081 krónur á mánuði. Út frá þessum forsendum gætu því tveir aðilar í sambúð, sem búa saman á heimili og eru báðir á grunnlífeyri, búist við skertum sérstökum húsnæðisstuðningi.

Í reglum Reykjavíkurborgar kemur fram að upphæð húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings geti aldrei numið hærri fjárhæð en 90.000 krónum. Í þeim reglum er ekki tekið nægilega mikið mið af húsnæðiskostnaði, þar sem úreikningur á sérstökum húsnæðisstuðningi horfir helst til tekna í stað hlutfalls húsnæðiskostnaðar af tekjum. Ég tel því mikilvægt að sérstakur húsnæðisstuðningur verði reiknaður með því móti að hann fylli upp í það sem á vantar svo að húsnæðiskostnaður verði aldrei hærri en 25% af ráðstöfunartekjum heimilisins. Húsnæðisstuðningur ætti almennt að hafa það að markmiði að enginn greiði meira en 25% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað en það er almennt viðmið sem telst til viðeigandi hlutfalls húsnæðiskostnaðar. Þá er það mat fulltrúa Sósíalistaflokksins að leiguverð eigi ekki að nema meira en 20% af ráðstöfunarfé þeirra sem hafa sem minnsta innkomu, þar má t.d. nefna þá sem eru á grunnlífeyri. Samkvæmt matsblaði Reykjavíkurborgar í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning telst húsnæðiskostnaður íþyngjandi ef hann er meiri en 20% af tekjum heimilisins að teknu tilliti til húsnæðisbóta og verulega íþyngjandi ef hann er meiri en 30% af tekjum heimilisins að teknu tilliti til húsnæðisbóta.

Breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð var einnig á dagskrá velferðarráðs en grunnfjárhæð framfærslustyrks hækkaði um 6% nú um áramótin. Upphæðin fór því úr 189.875 krónur á mánuði upp í 201.268 krónur á mánuði fyrir einstakling sem rekur eigið heimili. Hjá hjónum og sambúðarfólki hækkaði upphæðin úr 284.813 kr. upp í 301.902 kr. á mánuði fyrir þá sem reka eigið heimili. Með rekstri eigin heimilis er átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning um húsnæðið. Grunnfjárhæðin er t.d. lægri ef að einstaklingur býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings og enn lægri ef einstaklingur býr hjá foreldrum. Hér er mikilvægt að taka fram að þó að aðili dvelji hjá foreldri, þýðir það ekki endilega að hann greiði enga leigu.

Ég get ekki séð það að upphæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu séu til þess fallnar að bæta viðkvæma stöðu þeirra sem framfleyta sér á henni og eru langt frá því að vera nóg til að tryggja að einstaklingar og fjölskyldur geti lifað mannsæmandi lífi. Fulltrúar sósíalista myndu því vilja sjá grunnupphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu bundna við upphæð lágmarkslauna fyrir fullt starf, sem verkalýðsfélögin hafa nú sett við 300.000 kr. á mánuði. Þá teljum við einnig rétt að fjárhagsaðstoðin þróist í takt við hækkun lágmarkslauna. Þeir sem þurfa að lifa á fjárhagsaðstoð gera slíkt ekki nema að þörf sé á og ætti upphæðin að duga fyrir helstu nauðsynjum út mánuðinn en erfitt er að sjá fyrir sér hvernig ætlast sé til þess að einstaklingur lifi sómasamlega á umræddri upphæð. Gert er ráð fyrir að vaxtabætur, húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur hjálpi til við að greiða húsnæðiskostnað en það er stuðningur sem einstaklingar á lágmarkslaunum fá einnig en slíkt dugar samt sem áður oft ekki til að láta enda ná saman.

Fjárhagsaðstoð borgarinnar er veitt þeim sem ekki geta séð sér farboða án aðstoðar og er ekki veitt nema að allar aðrar leiðir hafi verið kannaðar til hlítar. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er því síðasta úrræðið sem stendur einstaklingum til boða og er oft hugsuð sem öryggisnet til skemmri tíma en vegna aðstæðna sinna þurfa sumir að lifa á þessari upphæð til lengri tíma og mikilvægt er að upphæðin sé til þess fallin að einstaklingar og fjölskyldur búi aldrei við fátækt eða lendi í fátækragildru.“