- Advertisement -

Hús íslenskunnar rís

stjr.is: Byggingu Húss íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík miðar vel og eru ákveðnir verkþættir á undan áætlun. Samkvæmt Framkvæmdasýslu ríkisins hafa framkvæmdir gengið mjög vel í sumar og er uppsteypa hafin á veggjum þriðju hæðar byggingarinnar, mánuði á undan áætlun.

„Það er spennandi að fylgjast með þessu fallega og mikilvæga húsi rísa á Melunum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Með tilkomu þess verður bylting í aðstöðu okkar til þess að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þjóðarinnar.“

Hús íslenskunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar verða sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir sem og skrifstofur og bókasafn.

„Hús íslenskunnar mun gerbreyta starfsemi Árnastofnunnar og allri þjónustu við almenning, skólafólk og ferðamenn. Samstarfið við Háskóla Íslands í húsinu mun skapa mýmörg ný tækifæri, en einnig nábýlið við Þjóðarbókhlöðuna og Þjóðminjasafnið hinum megin við götuna. Við getum ekki beðið eftir að fylla bygginguna lífi,“ segir Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við byggingu hússins er styðst Framkvæmdasýsla ríkisins við VÖR hugmyndafræðina, sem er safn vinnureglna, aðferða og markmiða sem víkja að vistkerfis-, öryggis- og réttindamálum. Allt bendir til þess að bygging hússins muni uppfylla BREEAM skilyrði fyrir því að teljast umhverfisvæn bygging.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: