Greinar

Húrra fyrir krónunni! Húrra!

By Miðjan

October 19, 2023

Ólafur Haukur Símonarson skrifaði:

Meirihluti Íslendinga „elskar“ krónuna af því að hún er til vitnis um sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfræði í peningamálum og hagstjórn. Krónan er tákn þess að við látum ekki einhverja evrópulassaróna hafa vit fyrir okkur. Það er nú einu sinni þannig að útlendingar skilja ekki íslenska hagstjórn. Verst fyrir þá. Þeir hafa einfaldlega ekki ímyndunarafl til að skilja þá möguleika sem krónan veitir til að víkja sér undan þegar allt fer í hass í heimsbúskapnum. Þá getur okkar dáði Seðlabanki nefnilega brugðist við, reist í snatri sirkustjaldið á Arnarhóli, og óðar birtist glæsileg fylking töframanna, kraftakarla og trúða úr sölum Alþingis til að halda sýningu á göldrum líkustum hæfileikum íslensku krónunnar fyrir þjóðina sem fyllir tjaldið.

Og það er ekki lítið sem krónan okkur kann; hún getur sprengt allar verðbólgumælingar eins og að drekka vatn; hún getur fellt bankakerfi eins og spilaborg; hún getur gert launahækkanir að engu á einu augnabliki; hún getur hækkað afborganir lána um helming með einu pennastriki; krónan okkar getur flotið í kampavínsglasi; en hún getur líka steinsokkið fyrirvaralaust. Hvílíkt lán fyrir þjóðina að eiga þetta töframeðal! hrópar sirkusstjórinn og klórar sér í eldrauðu skegginu. Hugsið ykkur leiðindin ef lánin ykkar stökkbreyttust aldrei! Hvað yrði um manndóm þjóðarinnar ef hún þyrfti bara að borga íbúðina sína einu sinni! Og þjóðin í sirkustjaldinu klappar fyrir ótrúlegri frammistöðu íslensku krónunnar.

Hún er öruggur vitnisburður um sjálfstæði okkar og heilbrigt sálarlíf! æpir hver upp í annan. Húrra fyrir krónunni! Húrra!