„Ráðherra heilbrigðismála fékk í liðinni viku fyrirspurn um misnotkunina á lyfjagáttinni frá Bergþóri Ólasyni alþingismanni og þar kom fram að ráðherra hafði ekki verið kunnugt um þessa glufu í lyfjagáttinni fyrr en Morgunblaðið flutti af henni frétt. Ráðherra sagði að þetta væri til meðferðar hjá Persónuvernd, Lyfjastofnun og landlækni og að hann hefði látið senda fyrirspurn um málið til landlæknis þegar hann frétti af málinu. Hann sagðist telja málið mjög alvarlegt og að full ástæða væri fyrir ráðuneytið að fylgja því eftir,“ segir í leiðara Moggans.
Þetta er stórmerkilegt mál. Ekki bara að óviðkomandi hafi flett upp lyfjanotkun annars fólks. Það er stranglega bannað. Mogginn segir svo:
„Jákvætt er að ráðherra hyggist fylgja málinu eftir og vonandi verður glufunni lokað hratt og örugglega. En það hlýtur samt að vera umhugsunarefni fyrir ráðherrann að, líkt og fram kom í frétt Morgunblaðsins, þá funduðu Lyfjastofnun, landlæknir og Perrsónuvernd um misnotkun á lyfjagáttinni í febrúar síðastliðnum. Þar er málið enn í skoðun en engar upplýsingar bárust samkvæmt þessu um málið til ráðuneytisins á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru. Það bendir ekki til að þessar stofnanir taki málið mjög alvarlega, en vonandi verður nú slegið í klárinn því að slíkar upplýsingar eiga ekki að liggja á glámbekk og enginn vafi má ríkja um að fyllsta öryggis sé gætt.“